Fékk fimm ár fyrir brunann á Selfossi

Frá Kirkjuvegi á Selfossi, daginn eftir að eldur kom upp …
Frá Kirkjuvegi á Selfossi, daginn eftir að eldur kom upp í húsinu. mbl.is/Eggert

Vigfús Ólafsson, karlmaður á sextugsaldri, hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að valda eldsvoða í einbýlishúsi við Kirkjuveg á Selfossi 31. október síðastliðinn, en tvær manneskjur létust í brunanum. Hann er dæmdur fyrir stórfellda brennu og manndráp af gáleysi. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands rétt í þessu.

Kona sem einnig var ákærð í málinu, fyrir að koma þeim látnu ekki til bjargar, var sýknuð af ákærunni.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari í málinu sagði í málflutningi sínum í júnímánuði að hæfileg refsing Vigfúsar vegna málsins væri allt að átján ára fangelsi, en dómur Héraðsdóms Suðurlands hljóðar upp á fimm ár, sem áður segir.

Dæmdur fyrir manndráp af gáleysi

Kolbrún segir í samtali við mbl.is að Vigfús hafi verið dæmdur fyrir manndráp af gáleysi og stórfellda brennu, en hún var einungis rétt svo búin að líta á niðurstöðu dómsins er blaðamaður náði tali af henni í dómshúsinu á Selfossi.

Ekki var fallist á aðalkröfu ákæruvaldsins þess efnis að Vigfús yrði dæmdur fyrir að hafa valdið brunanum og þar með andláti þeirra tveggja sem voru stödd á efri hæð hússins er eldurinn kom upp, af ásetningi á lægra stigi.

Hvort málinu yrði áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins gat Kolbrún ekki tjáð sig um á þessum tímapunkti, en sú ákvörðun er í höndum ríkissaksóknara.

Vigfúsi er gert að greiða aðstandendum hinna látnu á þriðja tug milljóna í miskabætur vegna málsins, auk þess sem hann ber allan sakarkostnað í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert