Íbúinn var í annarlegu ástandi

Íbúinn er sagður hafa verið í mjög annarlegu ástandi og …
Íbúinn er sagður hafa verið í mjög annarlegu ástandi og verður hún vistuð í fangageymslu lögreglunnar þangað til hægt verður að yfirheyra hana. mbl.is/Árni Sæberg

Konan sem býr í íbúðinni sem varð eldi að bráð á stúdentagörðunum á Eggertsgötu fyrr í kvöld var færð í mjög annarlegu ástandi á slysadeild Landspítalans við Fossvog. Vitni sáu hana hlaupa úr íbúðinni með reykmökkinn á eftir sér og lét hún öllum illum látum á vettvangi, segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Hún er ekki talin alvarlega slösuð en verið er að athuga hvort hún kunni að vera með reykeitrun. Í framhaldinu verður hún vistuð í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þangað til hægt verður að yfirheyra hana.

Aðgerðum á vettvangi er lokið í bili og íbúðin hefur verið innsigluð. Á morgun hefst rannsókn á eldsupptökum.

Varðstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að vonlaust hefði verið að greina hvar eldurinn kom upp í íbúðinni vegna mikils tjóns. 

Eldurinn kom upp í íbúð á 1. hæð fjölbýlishúss á Eggertsgötu 24 fyrr í kvöld og var allt tiltækt lið slökkviliðsins sent á vettvang. Klukkan hálfsjö náðist að slökkva eldinn og tók þá við reykræsting. 

Ljóst er að tjónið í íbúðinni er töluvert og þá barst reykur í aðrar íbúðir fjölbýlishússins sem olli einhverjum reykskemmdum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert