Segir verðmæti í húfi fyrir alla

Hvalá nyrðri í Ófeigsfirði.
Hvalá nyrðri í Ófeigsfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Framkvæmdastjóri Landverndar segir ákvörðun um að kæra framkvæmdaleyfi vegna Hvalárvirkjunar hafa verið tekna um leið og leyfið hafi legið fyrir. Hún segir mikil verðmæti felast í óbyggðum Drangajökulsvíðerna og vonast til að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan kæran er til skoðunar. 

Rjúk­andi, Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök Íslands og Ung­ir um­hverf­issinn­ar standa að kærunni til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) ásamt Landvernd. 

Land­eig­end­ur meiri­hluta Dranga­vík­ur á strönd­um kærðu deili­skipu­lag og fram­kvæmda­leyfi fyr­ir fyrsta áfanga virkjunarinnar 24. júní, en leyfið var veitt 12. júní. Byggir aðild landeigenda að kæru til ÚUA á eign­ar­rétti þeirra að jörðinni Dranga­vík og vatns­rétt­ind­um sem henni fylgja.

Ákvörðunin tekin um leið

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdarstjóri Landverndar, segir það vera jákvætt að tvær kærur hafi verið lagðar fram til ÚUA úr mismunandi áttum. 

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

„Við tókum ákvörðun um þetta bara nokkurn veginn daginn sem okkur varð ljóst að þetta framkvæmdaleyfi hafði verið veitt. Við fylgdumst vel með starfsemi Árneshrepps og þau auglýstu þetta ekki á dagskrá fundarins þannig að það var ekki ljóst að þetta yrði tekið fyrir fyrr en leyfið var komið út. Um leið og það var orðið ljóst tókum við þessa ákvörðun,“ segir Auður. 

„Það er mun sterkara að þetta séu tvær kærur sem koma frá mismunandi aðilum sem hafa að einhverju leyti sömu rök fyrir sinni kæru og vilja að framkvæmdaleyfið sé ógilt. Þetta kemur úr tveimur mismunandi áttum en málsástæður eru svipaðar að mörgu leyti.“

Þeir sem að kærunni standa fara fram á að framkvæmdir við Hvalárvirkjun verði stöðvaðar á meðan málið er til umfjöllunar hjá ÚUA. 

„Við biðjum úrskurðarnefndina um að stöðva framkvæmdir. Þarna getur orðið óafturkræft rask jafnvel þó að framkvæmdirnar verði stutt á veg komnar. Það er mjög mikilvægt að stöðva framkvæmdirnar strax og ég er mjög bjartsýn á að svo verði gert. Þarna eru svo mikil verðmæti í húfi og þegar framkvæmdaleyfið var veitt á svona veikum grunni tel ég að það séu góðar líkur á því.“ 

Ágallar á faglegu ferli 

Auður segir málsástæður Landverndar og hinna samtakanna ekki vera svo frábrugðnar málsástæðum landeigenda. Báðum hópum sé fyrst og fremst umhugað um að vernda náttúru og fornminjar á svæðinu. Þá segir Auður að ágallar hafi verið á faglegu ferli í aðdraganda leyfisveitingarinnar. 

„Við teljum að það sé ekki lögmætt að skipta upp skipulagi eins og er gert þarna. Það er veitt leyfi fyrir fyrsta áfanga virkjunarinnar, sem sagt lagningu virkjunarvega og það er gert með því yfirskyni að það sé nauðsynlegt fyrir rannsóknir sem við höfum bent á í allri umfjöllun um þetta að þessir virkjunarvegir séu alls ekki nauðsynlegir til að stunda þarna rannsóknir. 

„Þarna á að fara í mjög mikla efnistöku, meðal annars úr stöðuvatni sem nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Þarna verður opið um víðerni sem standa á vörð um samkvæmt náttúruverndarlögum. 

„Svo teljum við að ekki sé verið að fara að faglegu ferli. Mjög neikvætt umhverfismat virkjunarinnar er virt að vettugi og við teljum að það fari gegn lögum um umhverfismat.“ 

Verðmæti fyrir heimsbyggðina alla 

Auður telur það mikilvægt fyrir Drangajökulsvíðernin öll að áform um Hvalárvirkjun nái ekki fram að ganga. Svæðið sé einstakt og að friðlýsing væri arðbærari en virkjun, en bæði En­vironice og Skipu­lags­stofa segja áhrif friðlýs­ing­ar mun já­kvæðari en virkj­un­ar.

„Ef framkvæmdaleyfið yrði dæmt ógilt yrðu framkvæmdir náttúrulega stöðvaðar og VesturVerk þyrfti að skoða málið aftur. Það myndi gefa okkur tækifæri til að ræða virkilega um það og gefa okkur tækifæri til að fara í mjög góða úttekt á því hvaða gildi þetta svæði getur haft óraskað, eins og hefur verið byrjað á.

„Þetta er gífurlega verðmætt óraskað og gífurlega verðmætt til framtíðar. Það veitir okkur tækifæri til þess að spá virkilega í því hvað við gætum mögulega gert þarna. Þetta eru ein af stærstu ósnertu víðernum í Evrópu sem eru virkilega óbyggð. Þarna eru gríðarleg verðmæti, ekki bara fyrir okkur heldur heimsbyggðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert