30% námslána breytt í styrk

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur ekki tekið afstöðu til frumvarpsins, en …
Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur ekki tekið afstöðu til frumvarpsins, en lánasjóðsfulltrúi stúdenta segir þó fagnaðarefni að frumvarpið hafi nú loksins litið dagsins ljós. mbl.is/Árni Sæberg

30% námslána verða felld niður við námslok, samkvæmt frumvarpi um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna, sem lagt var fram í samráðsgátt stjórnvalda í gær. Lánasjóði íslenskra námsmanna er þar gefið hið nýja nafn til að endurspegla styrkinn, sem menntamálaráðherra segir vera róttæka breytingu og mikla kjarabót fyrir námsmenn.

„Það er að sjálfsögðu gott að þetta frumvarp hafi loksins litið dagsins ljós,“ segir Marinó Örn Ólafsson, lánasjóðsfulltrúi stúdenta í samtali við mbl.is. Inntur eftir afstöðu stúdentaráðs til innihalds þess segir hann þó ótímabært að fullyrða að svo stöddu. Opinn fundur verði haldinn um málið í næstu viku og mun stúdentaráð í kjölfarið taka afstöðu til frumvarpsins.

Marinó Örn Ólafsson, fulltrúi stúdenta í stjórn LÍN.
Marinó Örn Ólafsson, fulltrúi stúdenta í stjórn LÍN. Ljósmynd/Aðsend

Þar sem önnur höndin gefur, tekur þó hin því viðbúið er að vextir verði hækkaðir á móti. Í núverandi kerfi eru vextir verðtryggðra námslána 1%, og hafa verið svo frá árinu 1992 en fyrir það báru námslán enga vexti.

Í frumvarpinu, sem nú var lagt fram, er kveðið á um að vextirnir taki mið af vaxtakjörum ríkisins auk vaxtaálags upp á 0,6-0,8% til að mæta afföllum. Miðað við núverandi vaxtakjör ríkisins má gera ráð fyrir að þetta jafngildi um 1,5% verðtryggðum vöxtum. Ljóst er að miðað við þær forsendur munu nýju lánin vera námsmönnum hagstæðari en þau sem nú eru, því 30% niðurfellingin vegur mun þyngra en hin litla vaxtaaukning.

Það gæti hins vegar breyst ef vaxtakjör ríkisins versna til muna. Þannig má gera ráð fyrir að árið 2010, í miðri kreppu, hefðu verðtryggðir vextirnir numið um 4,5% ef fyrirhuguð viðmið hefðu verið lögð til grundvallar.

Nokkrar smærri breytingar verða einnig gerðar á lánafyrirkomulagi. Auk verðtryggðu lánanna, sem nú eru eina valið, verður einnig boðið upp á óverðtryggð lán.

Í stað þess að endurgreiðsla láns hefjist tveimur árum eftir að námi lýkur, verður það einu ári eftir námslok.

Í stað tekjutengingar endurgreiðslna verða lán almennt jafngreiðslulán, líkt og hefðbundin húsnæðislán. Lántakendum, sem eru 35 ára eða yngri þegar námi lýkur og á verðtryggðum lánum, gefst þó kostur á að velja tekjutengdar afborganir.

Ólíkt gömlu lögunum, þar sem vaxtakjör eru ekki tilgreind nákvæmlega, …
Ólíkt gömlu lögunum, þar sem vaxtakjör eru ekki tilgreind nákvæmlega, eru nýju lögin nokkuð skýr. Vextir skulu miðast við lægstu vexti á ríkisskuldabréfum að viðbættu 0,6-0,8% álagi til að mæta afföllum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Styrkur, en bara ef þú tekur lán

Fyrirkomulag námsmannastuðnings á Íslandi er þannig að enginn stuðningur er veittur nema þeim sem taka lán, og má segja að með því séu námsmenn hvattir til skuldsetningar eigi þeir að hafa eitthvað af ríkinu.

Í núverandi fyrirkomulagi birtist sá stuðningur einkum í afslætti á markaðsvöxtum, en sem fyrr segir bera námslán um 1% verðtryggða vexti á meðan markaðsvextir hér á landi eru rúm 3%. Þannig geta námsmenn, sem þurfa ekki á námslánum að halda til framfærslu, í raun safnað sér upp pening með því að taka námslán, leggja beint inn á bankareikning og hirða vaxtamismuninn.

Auk hagstæðra lána, sem nú verða felld niður að hluta við námslok, bætist við samkvæmt frumvarpinu sérstakur styrkur vegna framfærslu barns, þ.e. bein peningagreiðsla til þeirra sem eiga barn og uppfylla kröfur um námsframvindu. Skal hann vera jafnhár barnalífeyri, sem í dag er 34.362 krónur á mánuði.

Athygli vekur þó að sá styrkur er aðeins greiddur þeim sem taka námslán. Námsmenn sem ákveða að taka ekki námslán fyrirgera þannig rétti sínum til styrksins, líkt og hið opinbera sé áfjáð í að hvetja námsmenn til skuldsetningar. 

Fyrirkomulagið hérlendis er því um margt ólíkt öðrum Norðurlöndum þar sem námsmenn fá, auk hagstæðra lánakjara, fastan námsstyrk sé námsframvinda eðlileg. Í Svíþjóð fá barnlausir námsmenn til að mynda 3.640 sænska krónur (um 49 þúsund íslenskar) á mánuði í námsstyrk, og barnafólk fær viðbótarstyrk. Reglur eru þó æði mismunandi milli landa. Þannig fá námsmenn í Svíþjóð ekki styrk séu þeir eldri en 57 ára, en í Danmörku eru engin aldurstakmörk. Þá fá sænskir nemar aukinn styrk vegna barneigna, en danskir námsmenn fá meira búi þeir ekki í foreldrahúsum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert