Ástin fundin með spjalli

Davíð Ö. Símonarson og Ásgeir Vísir vilja auðvelda fólkina leitina …
Davíð Ö. Símonarson og Ásgeir Vísir vilja auðvelda fólkina leitina að hinum eina sanna lífsförunaut. Arnþór Birkisson

Stefnumótaforritið The One hefur náð töluverðu flugi á skömmum tíma: eftir að hafa verið aðeins röska viku í loftinu var tæplega 1% landsmanna búið að sækja forritið og stofna aðgang. The One er með allt aðrar áherslur en forrit á borð við Tinder og Grindr, því í stað þess að fá að skoða aragrúa af notendum til að velja og hafna – fyrst og fremst á grundvelli útlits – þá tengir The One saman tvo notendur í senn, með hjálp gervigreindar, og leyfir þeim að ræða saman og kynnast áður en þeir gefa hvor öðrum græna eða rauða ljósið.

Hugmyndin er áhugaverð, og tókst þeim Davíð Erni Símonarsyni og Ásgeiri Vísi að afla u.þ.b. 15 milljóna króna frá íslenskum fjárfestum til að gera The One að veruleika. Fjárfestarnir vita sennilega sem er, að stefnumótaforrit sem hitta í mark geta verið mikil gullnáma og má nefna í því sambandi að Tinder hafði um 800 milljónir dala í tekjur á síðasta ári, eða jafnvirði um 100 milljarða króna. En samkeppnin er hörð og stefnumótamarkaðurinn flókinn, og hlýðir ákveðnum lögmálum sem markaðs- og viðskiptafólki ættu að þykja forvitnileg.

Þurfa gott jafnvægi

Fyrsta áskorunin er einmitt að hafa nægilega marga notendur á hverju markaðssvæði, því rétt eins og enginn vill koma inn á tóman skemmtistað þá eru nýir notendur óðara flognir á brott ef þeir opna stefnumótaforrit og sjá að þar er varla nokkra hræðu að finna. „Við byrjuðum á því að kynna The One með því að þræða dægurmálaþætti útvarpsstöðvanna og fengum strax mikil viðbrögð,“ útskýrir Davíð. „Þá kom í ljós nýtt vandamál, því karlmenn reyndust vera í miklum minnihluta en til að virka vel þarf að vera nokkuð gott jafnvægi á kynjunum í The One. Tókst að leysa kynjahallann með hraði, með því að sækja markvisst í fleiri karlkyns notendur.“

The One tengir notendur saman í upphafi dags og leyfir þeim að sjá aðeins eina mynd af hinum aðilanum. Þeir hafa tíma fram til miðnættis til að spjalla og kynnast, og velja að halda samtalinu áfram eða ekki. Ef annar notandinn vill ekki framlengja samtalið slitnar sambandið á miðnætti og The One kemur á tengingu við einhvern annan. Davíð segir þetta hugsað sem andsvar við þeirri ofuráherslu á útlit sem einkennir stefnumótaforrit í dag. Byggist hugmyndin m.a. á þeirri vísindalegu staðreynd að þegar fólk kynnist betur þá fer útlitið að skipta minna máli. Manneskja sem er skemmtilegur viðmælandi virkar meira aðlaðandi, á meðan kynbomba sem getur ekki haldið uppi samræðum fer að virka meira fráhrindandi. „Og með því að gefa frest til miðnættis þá bæði tekst að byggja upp skemmtilega spennu, og eins tryggja að skilaboðin séu skýr ef annar aðilinn hefur ekki áhuga. Hefur það nefnilega þótt gallinn við önnur stefnumótaforrit að fólk tengist, en áhuginn dalar síðan og annar aðilinn byrjar að hundsa hinn með tilheyrandi hugarangri.“

Stóra ástin fundin í hvelli?

Þá grunar Davíð og Ásgeir að margir séu orðnir þreyttir á þeim eiginleika vinsælustu stefnumótaforritanna að hvetja beint eða óbeint til skyndikynna, frekar en að hjálpa til við leitina að einhverjum sem gæti orðið góður lífsförunautur. „Þegar að er gáð þá byggist árangur margra stefnumótaforrita einmitt á því að fólk finni ekki stóru ástina, því þá myndi það hætta að nota forritið. Þó vissulega hafi orðið til fjöldamörg langtímasambönd og hjónabönd í gegnum forrit eins og Tinder, þá væri það ekki gott fyrir rekstrarmódel þannig forrita ef þau virkuðu svo vel að þorri notenda væri búinn að finna sér maka á augabragði,“ útskýrir Davíð.

Að því leyti mun tekjumódel The One þurfa að vera frábrugðið því sem gengur og gerist á þessum markaði og segir Davíð að það væri skemmtilegt markmið að geta kynnt forritið þannig að notendur megi reikna með að finna sálufélaga á innan við mánuði. „Gervigreind er sífellt að störfum á bak við tjöldin að reyna að tengja saman fólk sem á samleið. Við gerum t.d. útlitsgreiningu á ljósmyndum notenda til að spá fyrir um hvort fólk laðist hvort að öðru, og síðan er forritið líklegra til að tengja saman t.d. notanda sem er gjarn á að hefja samtalið við notanda sem hættir til að vera feiminn við að senda fyrsta skeytið.“

Með ástarörvarnar til Boston

Tekjumódelið er enn í mótun, og ímyndar Davíð sér að það mætti t.d. taka gjald fyrir að leyfa notendum að hefja strax samtal við einhvern annan, ef þeim lýst engan veginn á viðmælanda dagsins, eða sjá það strax ef hinn notandinn hefur gefið grænt ljós, frekar en að þurfa að bíða til miðnættis.

Eftir að búið er að fínpússa The One með aðstoð íslenskra notenda er ætlunin að fara í útrás með forritið, og byrja á Boston strax í haust. Davíð viðurkennir að það sé allt annað en auðvelt að ná góðri hlutdeild á stefnumótamarkaðinum og að þeir stærstu standi vel að vígi. Sérstaða The One ætti þó að duga til að ná ágætis skriðþunga. „Og það gildir um þennan markað að sá sem nær ákveðnum vexti nær að viðhalda forskotinu. Aðrir stefnumótavefir gætu reynt að herma eftir því sem við gerum en átt þeim mun erfiðara með að laða til sín notendur í sama markhópi.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert