Aukið fé og frumvarp muni bæta ferlið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem er settur dómsmálaráðherra segir frumvarp …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem er settur dómsmálaráðherra segir frumvarp sem lítur dagsins ljós í haust munu bæta umgjörð hælisleitendamála. Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar-, ferðamála-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra, segir að aukin fjárútlát til Útlendingastofnunar, 100 milljónir á þessu ári og aðrar 100 á því næsta, verði til þess ætlaðar að ráða inn nýtt starfsfólk.

„Markmiðið er að stytta ferlið í heild sinni. Eitt af markmiðunum með fyrirhuguðu frumvarpi og þeirri fjárveitingu sem Útlendingastofnun er ætlað, er að stytta málsmeðferðartíma sérstaklega í málum þegar börn eiga í hlut,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.

Hún segir ekki ljóst hvernig frumvarpið sem lagt verður fram í haust muni líta út en segir það liggja fyrir að það eigi að vera til þess fallið að stytta málsmeðferð hjá umsækjendum um hæli.

„Sum mál er hægt að afgreiða tiltölulega hratt. Sértu einstaklingur í ekki sérstaklega viðkvæmri stöðu og frá öruggu ríki er málsmeðferðartíminn ekki sérstaklega langur. Þegar fleiri þættir koma hins vegar til, þegar fjölskyldu mynstrið er flóknara eða aðstæðurnar, kallar það á ítarlegri skoðun sem tekur lengri tíma,“ segir hún.

Senda fólk til baka eftir viðmiðum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna

Um það hvort hún sem ráðherra geti ábyrgst með beinum hætti að ekki komi upp sú staða sem kom upp hér á dögunum, að börn sem hér hefðu dvalist mánuðum saman sæju fram á að vera send aftur til Grikklands og kviðu því mjög, þó að þau væru þar með alþjóðlega vernd, segir Þórdís að Ísland hafi í gegnum tíðina tekið mið af málflutningi flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

„Umræddar tillögur eru liður í því að gera kerfið skilvirkara. Þá er einstaklingum til dæmis ekki vísað aftur til Ungverjalands, þó að þau séu með vernd þar, í samræmi við Flóttamannastofnun SÞ“ segir Þórdís en flóttamannastofnunin hefur ekki mælst til þess sérstaklega að fólk sé ekki sent til Grikklands ef það hefur þar alþjóðlega vernd.

Gagnrýni hefur heyrst á þá leið að ekki sé tekið mið af bestu hagsmunum barns í ferlinu sem tekur við þegar sótt er um hæli fyrir börn. Þar segir Þórdís að hafa verði í huga hvernig bestu hagsmunir barns eru skilgreindir. „Í meginreglunni felst að við ákvarðanatöku beri að hafa til hliðsjónar hagsmuni barnsins og að þeir skuli hafa vægi við það mat sem fer fram þegar tekin er ákvörðun,“ segir Þórdís og segir jafnframt of snemmt að fullyrða um það hvort og þá hvernig við smíði nýs frumvarps verði leitast við að skerpa sérstaklega á samræmi reglugerðarinnar við Barnasáttmálann en segist hafa átt gagnlega fundi í gær annars vegar með Umboðsmanni barna og hins vegar Rauða krossinum.

mbl.is