Enginn dýralæknir á Vestfjörðum

Enginn dýralæknir starfar nú í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum.
Enginn dýralæknir starfar nú í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn dýralæknir starfar nú í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum. Enginn hefur sótt um starf dýralæknis á svæðinu sem Matvælastofnun auglýsti í mars síðastliðnum. Eini starfandi dýralæknirinn á svæðinu hætti í vor. „Þetta er alvarlegt,“ segir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir MAST. 

Matvælastofnun gerir þjónustusamning við dýralækna á tíu svæðum á landinu í samræmi við reglugerð nr. 846/2011 sem kveður á um að ríkið styðji við dýralækna til að búa og starfa á þessum tilteknum svæðum á landinu.

Reglugerðinni er ætlað að „tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralækna­þjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landsvæðum þar sem fjöldi dýra er tak­markaður og/eða verkefni dýralækna eru af skornum skammti“ eins og segir í reglugerðinni. 

Samkvæmt þjónustusamningnum, sem er gerður til fimm ára í senn, er dýralækni gert að vera með viðveru allan sólarhringinn alla daga vikunnar allan ársins hring. Dýralæknirinn á Vestfjörðum sagði upp þjónustusamningnum áður en hann rann út. 

„Eins og fyrirkomulagið er núna er fullur skilningur af minni hálfu að dýralæknar verði þreyttir og  telja þetta óviðunandi starfsaðstæður,“ segir Sigurborg. Hún bendir á að í nútímasamfélagi sé þetta ekki boðlegt og að fólk þurfi að eiga kost á að taka sér frí frá vinnu. 

Enginn dýralæknir er starfandi á Ísafirði.
Enginn dýralæknir er starfandi á Ísafirði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

MAST hefur bent landbúnaðarráðuneytinu á stöðuna. „Það er vilji til að leita leiða og fullur skilningur á því að setjast niður með okkur og Dýralæknafélaginu og leita lausna,“ segir Sigurborg um viðbrögð ráðuneytisins. Í haust losna fleiri samningar.  

Þessi fundur hefur hins vegar ekki enn átt sér stað. Spurð hvenær hann verði vísar hún á ráðuneytið. 

„Þetta er alvarlegt,“ segir Sigurborg um stöðu dýraeigenda á Vestfjörðum. Enginn dýralæknir er starfandi í Súðavík, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík, Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð. 

mbl.is