Leggur til óbreytta beygingu Sigríðar

Eiríkur Rögnvaldsson var prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands …
Eiríkur Rögnvaldsson var prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands um áratugaskeið. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„Ég mæli [...] með því að nöfn haldi beygingu sinni óbreyttri þótt þau séu borin af fólki af öðru kyni en venjan hefur verið,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, um nýja nafn Sigríðar Hlyns, bónda á Öndólfsstöðum í Reykjadal.

Eiríkur telur hyggilegast að fallbeygja nafnið áfram eins og kvenmannsnafnið Sigríður hefur almennt verið beygt. 

Það er:

Nefnifall: hann Sigríður

Þolfall: um hann Sigríði 

Þágufall: frá honum Sigríði

Eignarfall: til hans Sigríðar

Þannig gæti maður séð fyrir sér að nafnið, í sínu nýja hlutverki sem karlmannsnafn, geti haft beygingu ekki alls óhliðstæða til dæmis beygingu nafnsins Bárður, ef maður lítur fram hjá þolfallinu, sem virðist í fljótu bragði ekki vilja enda á -i ef um sterk karlkynsorð er að ræða.

Eins og segir í frétt mbl.is frá því í dag þarf ekki að breyta kynskráningu til þess að breyta nafni sínu í þjóðskrá heldur er það öllum frjálst.

Í Facebook-færslu segir Eiríkur að nafnið Sigríður hljóti að halda sinni beygingu, þó að nú beri það karl. „Þótt „Sturla“ sé greint sem karlkynsorð í Íslenskri orðabók hefur það kvenkynsbeygingu og engin ástæða til annars en greina það sem kvenkynsnafnorð. Það þarf sem sé ekki að vera samræmi milli málfræðilegs kyns nafns og kyns þess sem ber nafnið, þótt svo sé vissulega oftastnær,“ segir hann. 

Hér er hann Sigríður um hann Sigríði frá honum Sigríði …
Hér er hann Sigríður um hann Sigríði frá honum Sigríði til hans Sigríðar. Og hér er að vísu einnig lítið lamb.

Eiríkur segir að málsamfélagið hafi þó tilhneigingu til að vilja samræmi í kyni orðs og þess sem það á við. Þannig hafi nafnið Sturla vafist fyrir fólki á öldum áður, sem það gerir að vísu enn, og tilhneigingar gætt til þess að hafa Sturli nefnifallið og Sturla í aukaföllum, eins og hefðbundið veikt nafnorð.

Tíminn einn leiði í ljós hvernig málsamfélagið, það er tungumálið sem sjálfstæð lífræn heild einhvers konar, takist á við þessa breytingu. „Kannski breytist þessi tilhneiging málsamfélagsins smátt og smátt, eftir því sem nöfnum bornum af fólki af ýmsum kynjum fjölgar. Kannski veiklast þessi tengsl sem eru í huga málnotenda milli kyns nafns og nafnbera, og við förum bara að líta á mannanöfn eins og hver önnur nafnorð sem hafa sitt málfræðilega kyn sem tengist ekki kyni nafnbera - ekki frekar en „stóll“ er í eðli sínu karlkyns, eða „bók“ kvenkyns,“ segir Eiríkur.

Hér er færslan öll:

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert