Nýr dómsmálaráðherra í haust

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur verið dómsmálaráðherra í tæpa fjóra …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur verið dómsmálaráðherra í tæpa fjóra mánuði, ráðstöfun, sem alltaf stóð til að yrði tímabundin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýr dómsmálaráðherra tekur við embætti í haust, gerir sitjandi ráðherra ráð fyrir. Verið er að ræða málið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. 

Undanfarnar vikur hefur mætt nokkuð á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra, ekki síst eftir að umræða um tvær afganskar flóttafjölskyldur komst í hámæli. Síðan þá hefur ráðherra fyrirskipað breytingu á reglugerð, breytingu, sem gerir fjölskyldunum kleift að fá efnislega meðferð sinna mála.

Þórdís hefur haft dómsmálin, en þar inni eru málefni innflytjenda, á sinni könnu frá 14. mars á þessu ári, samhliða hinum málaflokkunum þremur. Hún tók eins og kunnugt er við dómsmálunum af Sigríði Á. Andersen sem steig til hliðar úr embætti dómsmálaráðherra þegar dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll 12. mars, úrskurðaði að Sigríður hefði gerst brotleg við skipun dómara í Landsrétt.

Þetta átti að vera og er tímabundin ráðstöfun, eins og talað hefur verið um. Þórdís Kolbrún sagði við mbl.is þegar hún tók við völdum að ekki væri um að ræða „margra mánaða skipun“ en þegar eru þeir orðnir fjórir. 

Sigríður Andersen steig til hliðar sem dómsmálaráðherra 14. mars.
Sigríður Andersen steig til hliðar sem dómsmálaráðherra 14. mars. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í samtali við mbl.is í dag kveður við sama tón hjá Þórdísi, um að ráðstöfunin sé vissulega tímabundin. Hún segist hafa tök á og tíma til að sinna öllum fjórum málaflokkum. „Ég auðvitað sinni þessu verkefni að fullu á meðan á því stendur. Ég gef mig alla í það, en eins og ég hef áður sagt er þetta tímabundin ráðstöfun,“ segir Þórdís. 

Aðspurð segist hún gera ráð fyrir því að niðurstaða fáist í málið í haust en gefur ekkert upp um hver kunni að taka við. Enn hefur ekki verið útilokað að Sigríður Andersen taki aftur við sínu gamla ráðuneyti. Nefnd innan yfirréttar Mannréttindadómstólsins birtir ákvörðun sína 9. september um það hvort áfrýjun málsins verði samþykkt og málið tekið fyrir í yfirréttinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert