Vara við „malbikunarsvikurum“

mbl.is/Eggert

Lögreglan á Norðurlandi Eystra varar í færslu á Facebook-síðu sinni í dag við einstaklingum sem reyni að svíkja fé út úr fólki með loforði um malbikun á innkeyrslum og bílaplönum.

Segir lögregla sér hafa borist ábending um grunsamlegt hátterni, þar sem hún telji verið að reyna að svíkja fé út úr fólki. „Samkvæmt ábendingunni er um að ræða enskumælandi menn, sem segjast vera verktakar við malbikun. Þeir segist eiga afgangs malbik og bjóða fólki að malbika innkeyrslur eða plön gegn hagstæðu gjaldi,“ segir í færslunni.

Beinir lögregla því til almennings að hafa varann á fái fólk slík gylliboð og gá að því að ekki sé verið að svíkja það.

Ekki hafi enn orðið vart við þessa „verktaka“ á Norðurlandi, en lögregla vilji fá af því fréttir fái fólk fær tilboð af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert