Á traktor með húsvagn í eftirdragi

Kurt fyrir framan traktorinn sinn og húsvagn.
Kurt fyrir framan traktorinn sinn og húsvagn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar hinn 68 ára gamli Kurt L. Frederiksen komst á ellilífeyrisaldur ákvað hann að nú skyldi hann finna sér nýtt áhugamál. Hann velti fyrir sér golfi, gönguferðum og fleiri álíka hefðbundnum áhugamálum sem fólk byrjar margt að stunda þegar það hættir á vinnumarkaði. Hann ákvað þó að það væri ekki alveg hans tebolli og fyrir valinu varð annað og nokkuð óhefðbundnara hugðarefni. 

Hann ákvað að elta draum sem kviknaði fyrir allmörgum árum og ferðast nú umhverfis Ísland á traktor, með húsvagn í eftirdragi.

„Þegar ég hætti að vinna vantaði mig eitthvað að gera. Ég er nú búin að gleyma að mestu leyti hvernig þetta byrjaði, en fyrir mörgum árum sá ég mynd í dagblaði af gömlum manni frá Þýskalandi sem var í svipaðri ferð á traktor. Ég ákvað að einn daginn myndi ég gera það sama. Ég man ekki einu sinni hve mörg ár eru síðan,“ segir Kurt hlæjandi, en hann er danskur rithöfundur og býr á Vestur-Sjálandi. 

Engin vandamál sem ekki er hægt að leysa

„Af hverju ekki að gera þetta? Einu vandamálin sem ekki er hægt að leysa eru bara í hausnum á manni. Maður þarf bara að byrja, það er ekkert sem þarf að óttast,“ segir Kurt. 

„Ég og konan mín eigum lítinn bóndabæ þar sem við búum og mig vantaði fyrir einhverjum árum traktor og ég keypti þennan. Svo einn daginn eftir að ég hætti að vinna og vildi finna mér eitthvað að gera mundi ég að traktorinn væri framleiddur í Finnlandi svo mér fannst upplagt að fara í einhverja ferð á traktornum og koma þar við.

Kurt bauð blaðamanni í heimsókn í húsvagninn áður en hann …
Kurt bauð blaðamanni í heimsókn í húsvagninn áður en hann hélt af stað austur suðurströndina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrir tveimur árum síðan ákvað ég svo loksins að fara til Norðkapp, nyrsta hluta Noregs. Ég fór í gegnum Svíþjóð og Noreg og svo tilbaka í gegnum Finnland að heimsækja verksmiðjuna þar sem traktorinn er framleiddur, leyfa honum að fara heim á æskuslóðirnar,“ segir Kurt hlæjandi. 

Veit ekki af hverju hann sagði Ísland

„Eftir þá ferð hugsaði ég mikið um hvað stæði uppúr. Besti hluturinn við svona ferðir er held ég fólkið sem maður hitti á leiðinni. Traktorinn og þessi hugmynd er svolítið sérstök, alls ekki erfið í framkvæmd, en það gera þetta ekki margir. Þannig að fólk er mjög áhugasamt, vill spjalla við mig og fá myndir.

„Þegar ég kom svo aftur heim til Danmerkur eftir Norðkapp spurðu mig margir hvert ferðinni væri heitið næst. Af hverju veit ég ekki en ég svaraði bara Ísland. Svo ég þurfti að fara til Íslands.“

Kurt segist upprunalega hafa keypt traktorinn fyrir bóndabýli sitt.
Kurt segist upprunalega hafa keypt traktorinn fyrir bóndabýli sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kurt kom til Íslands fyrir nokkrum árum síðan með eiginkonu sinni í stutt stopp á leiðinni til austurstrandar Grænlands, en hann hefur heimsótt Grænland 10 sinnum í heimildaskyni fyrir bækur sínar um danska landkönnuðinn Knud Rasmussen. 

„Það er því miður ekki hægt að vera á traktornum á Grænlandi. Ég kom þangað fyrst til að skrifa eina bók um Kurt Rasmussen sem urðu svo fleiri og svo heyrir maður um vini hans og aðra landkönnuði sem þurftu líka bækur. Þá safnast þessar ferðir upp. Á þessum tímapunkti eru ekki margir staðir í Grænlandi sem ég hef ekki komið til en mig hefur lengi langað til að ferðast um Ísland,“ segir Kurt. 

Erfitt að gera upp á milli staða

Aðspurður hvað standi uppúr það sem af er Íslandsferðinni segist Kurt ómögulega geta svarað því. 

„Alltaf spyr einhver að þessu og alltaf er jafn erfitt að svara. Þetta er afar fallegt land og fólkið er vingjarnlegt og hjálpsamt. Ég get ekki sagt þér hvort að eitthvað eitt sé fallegra en annað, þetta er allt svo ólíkt.“

Kurt kom til Seyðisfjarðar með Norrænu fyrir um þremur vikum síðan. Hann hefur síðan þá keyrt um Norðurlandið og þrætt Vestfirði og eftir stutt stopp í Reykjavík hélt hann af stað austur suðurströndina í dag. Hann áætlar að hann verði tvær vikur á leiðinni aftur til Seyðisfjarðar hvaðan hann fer heim til Danmerkur. 

Kurt fer ekki hratt yfir, en traktorinn kemst ekki hraðar en um 25 kílómetra á klukkustund. Kurt segir það raunar vera tilganginn með ferðum sínum. Að leyfa tímanum að líða hægt, vera einn með sjálfum sér án alls áreitis og njóta þess sem fyrir augu ber. 

Svekkjandi að komast ekki á Rauðasand

Kurt er bókmenntafræðingur að mennt og segist alltaf hafa verið heillaður af Íslendingasögunum. Það sé gaman að ferðast um landið á sögufræga staði hvar hinir ýmsu landnámsmenn byggðu fyrst ból. Þá sé hann raunar mikill aðdáandi íslenskra bókmennta almennt og nefnir í því sambandi Nóbelsskáldið Halldór Laxness og Danmerkurbúann Gunnar Gunnarsson. 

„Gunnar skrifaði náttúrulega sínar bækur á dönsku og þýddi yfir á móðurmálið,“ segir Kurt kíminn og bætir við að það hafi verið nokkur vonbrigði að traktorinn hafi ekki komist að söguslóðum Svartfugls við Rauðasand. 

Kurt hefur ferðast um Ísland í þrjár vikur og áætlar …
Kurt hefur ferðast um Ísland í þrjár vikur og áætlar að hann eigi tvær vikur eftir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kurt segist hafa fengið þá hugdettu á ferð sinni um landið síðustu vikur að skrifa danskan leiðarvísi um Ísland í kringum æskuslóðir hinna ýmsu skálda. 

„Ég kom hingað með svipaða bók á íslensku,“ segir Kurt og réttir blaðamanni bókina „Með þjóðskáldum um þjóðveginn“ eftir Jón R. Hjálmarsson. „Nú neyðist ég til að læra íslensku.“

Aðspurður um framhaldið segist Kurt alveg staðráðinn í því að fara í aðra ferð á traktornum einhvern tímann á næstunni. 

„Ég hef verið að spá í að fara umhverfis Eystrasaltið, um 6.000 kílómetra. Það er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að ég fari í þá ferð, nema kannski að annar áfangastaður yrði skyndilega meira heillandi,“ segir Kurt ánægður.

mbl.is