Ákvörðunar um ákæru í Kaupþingsmáli að vænta

Kaupþing
Kaupþing mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Rannsókn yfirvalda í Lúxemborg á stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna kaupa Lindsor Holding á skuldabréfum í Kaupþingi skömmu fyrir fall bankans árið 2008 er að ljúka. Þetta staðfestir fjölmiðlafulltrúi rannsóknardómarans í Lúxemborg við Morgunblaðið.

Að sögn embættisins mun rannsóknardómarinn, Ernest Nilles, bráðlega skila málinu til ríkissaksóknara, sem tekur ákvörðun um hvort gefin verður út ákæra í málinu og þá gegn hverjum.

Rannsóknardómarar sjá um rannsókn sakamála í Lúxemborg og hafa þeir það hlutverk að leggja fyrir lögreglu hvernig rannsókn sé framkvæmd og hvað eigi að reyna að upplýsa. Rannsóknargögn eru síðan send aftur til dómarans frá lögreglu. Rannsóknardómarinn í Lindsor-málinu var meðal þriggja manna sem lögregluyfirvöld í Lúxemborg sendu til Íslands við lok árs 2016 til að yfirheyra Íslendinga í tengslum við málið.

Áratugar löng rannsókn á enda

Lindsor-málið hefur verið til rannsóknar hérlendis og erlendis í yfir áratug. Að sögn Ólafs Þór Haukssonar héraðssaksóknara var byrjað að skoða Lindsor-málið árið 2009 á Íslandi. Samskipti milli Fjármálaeftirlitsins á Íslandi og Fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg, CSSF, „kveikir á málinu úti,“ að sögn Ólafs. Í ljósi reglna um tvöfalda refsingu var verkaskipting ákveðin á fundi milli landanna tveggja.

Kort/mbl.is

„Við tókum þann hluta sem var kallaður Marple-málið og fórum með það fyrir dóm og þeir tóku Lindsor-legginn vegna þess að ráðstafanir í því voru flestar gerðar úti í Lúxemborg,“ segir Ólafur.

Rannsókn málsins snýr að kaupum félagsins Lindsor Holding Corporation, sem er skráð á eyjunni Tortóla, einni af Bresku Jómfrúareyjum, á skuldabréfum Kaupþings með láni frá bankanum sjálfum en sama dag keypti Kaupthing í Lúxemborg skuldabréf af m.a. starfsmönnum bankans.

Lindsor fékk 171 milljónar evra peningamarkaðslán frá Kaupþingi þann 6. október 2008. Að mati Fjármálaeftirlitsins var Lindsor í reynd í eigu Kaupþings.

Þann sama dag, 6. október 2008, keypti Lindsor skuldabréf útgefin af Kaupþingi að upphæð 84 milljónir evra og 95,1 milljón dala ásamt skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi í japönskum jenum og krónum á 15,2 milljónir evra. Kaupthing bank í Lúxemborg var seljandi skuldabréfanna en bankinn hafði keypt skuldabréf sama dag m.a. af fjórum starfsmönnum bankans og félaginu Marple Holdings S.A., sem var skráð á Skúla Þorvaldsson.

„Það er mat Fjármálaeftirlitsins að Lindsor hafi hugsanlega verið notað til að koma peningum frá Kaupþingi til tengdra aðila í þeim tilgangi að losa þá við skuldabréf útgefin af Kaupþingi, þar sem ljóst var að staða bankans var orðin grafalvarleg, ásamt því að halda Kaupthing Luxembourg rekstrarhæfu,“ segir í vísun Fjármálaeftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara frá árinu 2010, sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Rannsókn sérstaks saksóknara hér heima sneri að umboðssvikum, þar sem talið var að með þessum gerningi hefði bankanum verið stefnt í stórfellda hættu.

Þremur dögum eftir að Lindsor keypti skuldabréfin, 9. október 2008, tók íslenska ríkið yfir Kaupþing banka. Hinn 31. október kom lán Lindsor til greiðslu en félagið greiddi það ekki enda átti það nánast ekkert annað en nær verðlaus skuldabréf í Kaupþingi. Samkvæmt verðmati sóttu úr Kaupthing banka í Lúxemborg 17. desember 2008, var verðmæti eignasafns Lindsor búið að lækka um 94% á rúmum tveimur mánuðum.

Skjalafals skoðað í Lúxemborg

Skoðunarnefnd skilanefndar Kaupþings sendi árið 2009 ábendingu til sérstaks saksóknara vegna gruns um mögulega refsiábyrgð er varðaði skjalafals stjórnenda og starfsmanna Kaupþings í tengslum við kaupin á skuldabréfunum.

„Skoðunarnefnd skilanefndar vill benda Sérstökum saksóknara á hugsanlega refsiábyrgð stjórnenda bankans þar sem pappírar varðandi yfirtöku KB [Kaupþing] á Lindsor, ákvörðun eiganda Lindsor um að taka lán hjá KB EUR 171m og fleiri pappírarar virðast ekki undirritaðir fyrr en í desember 2008 af meðal annars Hreiðari Má Sigurðssyni, en hann hætti hjá bankanum 21. október 2008. Umræddir pappírar eru allir dagsettir 24. september 2008. Ekki hefur fundist samþykki lánanefndar KB fyrir umræddri lánveitingu,“ segir í bréfi skilanefndarinnar til sérstaks saksóknara. Í vísun Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara segir að „í Lúxemborg snertir hugsanlegt skjalafals þá Magnús Guðmundsson [...] Eggert Hilmarsson [...] Doriane Rossignol [...] og Andra Sigurðsson“. Fjármálaeftirlitið vísaði nöfnum þeirra og aðild til Fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »