„Allt í hörðum hnút“

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Hari

Formaður Starfsgreinasambandsins (SGS) segir deilu sambandsins við samninganefnd íslenskra sveitarfélaga (SNS) vera í harðari hnút en sambærilegar deilur hafa verið í langan tíma. Segir hann SNS ekki vilja ræða lífeyrismál félagsmanna og að algjör pattstaða sé í kjaraviðræðum. 

Ein­ing-Iðja hót­aði í gær samn­inga­nefnd ís­lenskra sveit­ar­fé­laga sögu­lega víðtæk­um verk­föll­um ef ekki verður fall­ist á ein­greiðslu upp á 105.000 krón­ur sem SNS hefur samið um að greiða félagsmönnum einstakra stéttarfélaga eða sambanda. SNS hefur neitað SGS um slíkar eingreiðslur þar sem SGS hafi vísað kjaraviðræðum til sáttasemjara. 

Þá samþykkti stjórn Fram­sýn­ar stétt­ar­fé­lags álykt­un í gær þar sem skorað er á aðild­ar­fé­lög SGS að boða til verk­falla í haust standi SNS við ákvörðun sína.

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS og Einingar-iðju, segir hvert og eitt félag innan SGS vera að ræða stöðuna og þeirra afstöðu til málsins. 

Segir hann ástandið tvísýnt og að svo verði líklegast áfram þar til næsti samningafundur í kjaraviðræðum SGS við SNS fari fram í lok sumars. 

„Það er nú ekki búið að boða verkföll því það er ekki búið að halda árangurslausan fund hjá sáttasemjara. Næsti fundur er núna 21. ágúst og það hlýtur að skýrast um það leyti hver staðan er, en eins og hún er núna hlýtur að vera mjög erfitt að ræða saman þarna í lok ágúst,“ segir Björn. 

Menn ekki tilbúnir að sætta sig við afarkosti

Aðspurður hvers vegna SNS vilji ekki greiða félagsmönnum SGS eingreiðslu á borð við það sem önnur stéttarfélög og sambönd fá, nefnir Björn tvær ástæður. 

„í fyrsta lagi bera þeir því við að við höfum vísað deilunni til sáttasemjara og í öðru lagi vilja þeir ekki ræða þessi lífeyrismál sem við höfum viljað ræða,“ segir Björn

„Aðrir viðsemjendur, BSRB [Bandalag starfsmanna ríkis og bæja] og BHM [Bandalag háskólamanna], sem eru að semja við sveitarfélögin, þeir eru búnir að ganga frá þessum málum varðandi lífeyrissjóði.

„Við eigum hins vegar eftir að ræða þessi lífeyrismál á meðan aðrir eru búnir að ganga frá þessu, svo við náttúrulega vísum þessu til sáttasemjara því menn vildu ekki ræða okkar kröfugerð um þessi lífeyrismál og svo nota þeir [SNS] það núna gegn okkur að við höfum vísað til sáttasemjara og setja það þá sem skilyrði að ef við ræðum ekki um lífeyrismálin þá getum við kannski fengið þetta [eingreiðsluna]. Menn eru ekki tilbúnir að sætta sig við það, einhverja afarkosti.“

Allt í hörðum hnút

Björn segir það úrræði að vísa slíkum deilum til sáttasemjara vera rétt SGS og að það sé afar slæmt að SNS skuli nota það gegn þeim í kjaraviðræðum. 

„Þeir [SNS] geta alveg haft sínar skoðanir á því og allt í lagi með það, en það náttúrulega er hægt að ræða þessi mál við okkur og að fólkið okkar, sem er lægst launaða fólkið hjá sveitarfélögunum, skuli sitja eftir á meðan aðrir eru að fá þessa greiðslu. Það á að reyna að kúga okkur til hlýðni af hálfu sveitarfélaganna, sem þeim mun ekki takast.

„Það er allt í mjög hörðum hnút í þessum samningaviðræðum SGS og sveitafélagana. En við erum bara saman í þessu,“ segir Björn.

Fram að næsta samningafundi í lok ágúst segist Björn ekki geta sagt til um það hvert framhaldið verður.

„Þangað til er algjör pattstaða og deilan er í harðari hnút en svona deilur hafa verið í mjög langan tíma. Það er alveg ljóst að ef ekkert lagast munu vera hér mjög hörð átök á vinnumarkaði og það mun koma niður á þeim sem síst skyldi því okkar fólk er að vinna í skólum og leikskólum, öldrunarþjónustu og við málefni fatlaðra. 

„Ef við þurfum að fara í verkfall kemur það náttúrulega niður á þjónustunni við þetta fólk þannig það mun hafa gríðarleg áhrif ef við þurfum að beita þessu verkfallsvopni. Við erum alltaf tilbúin til samninga en það þarf tvo til,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert