Ekki útilokað að enn þurfi gamla Herjólf

Hinn nýi Herjólfur kom til Eyja í síðasta mánuði og …
Hinn nýi Herjólfur kom til Eyja í síðasta mánuði og er nú í prófunum. Stefnt er að því að taka hann í notkun á næstu vikum. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., segir ekki útilokað að gamli Herjólfur reynist enn nauðsynlegur til siglinga milli Þorlákshafnar og Eyja. Nýja skipið sé einkum hannað með Landeyjahöfn í huga. Stefnt er að því að nýr Herjólfur verði tekinn í gagnið 18. júlí.

Skipið kom til landsins í síðasta mánuði frá Póllandi, þar sem það var smíðað. Nýja skipið ristir grynnra en það gamla og á að reynast betur til siglinga til Landeyjahafnar, þangað sem reynt er að sigla sem oftast enda ferðatíminn aðeins um 45 mínútur. Sé ölduhæð þar of mikil, veður vont eða dýpi í Landeyjahöfn of lítið til að hægt sé að sigla þangað, er þó siglt til Þorlákshafnar en sú sigling tekur um 2 tíma og 45 mínútur. 

Ökubrúin reyndist of brött

Unnið er að lokafrágangi á ökubrú í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn, sem þurfti að lengja til að bílar með varning geti keyrt þar upp úr skipinu. Nýja skipið er lægra en hið gamla og því er bratti ökubrúnna of mikill við núverandi aðstæður.

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri …
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Vegagerðin

Guðbjartur segir nýju ferjuna vera hannaða með Landeyjahöfn í huga. Markmiðið hafi verið að ferjan geti siglt milli Landeyja og Vestmannaeyja oftar en forveri sinn. Upp hafa komið áhyggjur af því að nýr Herjólfur sé verr til þess fallinn að sigla til Þorlákshafnar, þegar það reynist nauðsynlegt. Aðspurður játar Guðbjartur að það geti hugsanlega komið niður á ferðum til Þorlákshafnar og að skipið geti verið verr búið til siglinga þangað en gamli Herjólfur. Ekki sé unnt að skip sé sérhannað með aðstæður beggja hafna í huga.

Gæti nýst sem skólaskip og varaferja

Samningur Herjólfs ohf. við Vegagerðina, eiganda gamla Herjólfs, gerir ráð fyrir að skipið verði í umsjá Herjólfs ohf. til loka árs 2021 og segir Guðbjartur mikilvægt að hafa það til staðar meðan menn séu að koma nýja skipinu í gagnið. „Það er bara þannig með ný skip að það geta alltaf komið upp óvæntar bilanir og hugsanlega gætum við þurft að grípa til gamla skipsins. Því er gott að hafa það til vara, út frá öryggissjónarmiðum.“

Bæjastjórn Vestmannaeyjabæjar samþykkti í síðasta mánuði samhljóða áskorun þess efnis að gamli Herjólfur yrði um ókomna tíð í Vestmannaeyjum og nýttur sem skólaskip Slysavarnaskóla sjómanna. Fari svo gæti skipið því hugsanlega nýst til ferða milli Þorlákshafnar þegar hið nýja skip, samgöngubótin, er ekki fær.

Prófanir hafa staðið yfir á nýjum Herjólfi síðustu vikuna og meðal annars siglt til Þorlákshafnar í blíðskaparveðri. Segir Guðbjartur þær prófanir hafa gengið vel. Sömu sögu sé að segja af langferðinni frá Póllandi en þar hafi  helst komið skipstjórum á óvart hve litlar hreyfingar voru á skipinu, og er það vel. 

Þurfa að losa bílastæðið fyrir þjóðhátíð

Verktakinn Ístak hefur aðstöðu í Landeyjahöfn og hefur þar komið fyrir vinnubúðum og geymir efni á bílastæði við höfnina sem einkum er nýtt á þjóðhátíð, þegar umferð um höfnina margfaldast. Losa þarf bílastæðið fyrir þann tíma og segir Guðbjartur að viðræður standi yfir við verktakann um það mál. Þótt ljóst sé að einhver þurfi að borga brúsann segir Guðbjartur engan sérstakan ágreining uppi milli aðila. 

mbl.is

Bloggað um fréttina