Guðjón stefnir ríkinu

Guðjón Skarphéðinsson hefur stefnt ríkinu og krefst bóta.
Guðjón Skarphéðinsson hefur stefnt ríkinu og krefst bóta. mbl.is/Golli

Guðjón Skarphéðinsson, einn þeirra sem sýknaður var af ákæru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, hefur stefnt ríkinu til greiðslu bóta. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Málið var þingfest í lok júní.

Ragnar vill ekki gefa upp hver bótakrafan er, en gera má ráð fyrir af fyrri yfirlýsingum að hún sé í kringum milljarð króna.

Guðjón var árið 1980 fundinn sekur um að að hafa orðið Guðmundi og Geirfinni Einarssyni að bana sex árum áður, en auk hans voru Kristján Viðar Viðarsson, Sævar Ciesielski, Albert Klahn, Tryggvi Rúnar Leifsson og Erla Bolladóttir sakfelld. Sexmenningarnir fengu mislanga dóma, en Guðjón var dæmdur í 10 ára fangelsi. Hann sat þó aðeins inni í fjögur og hálft ár, og fékk árið 1995 uppreist æru.

Hæstiréttur sýknaði í haust alla sakborninga að Erlu undanskilinni. Bað forsætisráðherra fimmmenningana afsökunar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og skipaði í kjölfarið sáttanefnd sem skyldi leitast við að semja um skaðabætur.

Greint hefur verið frá því að sáttanefndin hafi haft úr 600 milljónum króna að spila og skyldu þær skiptast á milli fyrrum sakborninga, og erfingja þeirra látnu, í hlutfalli við dómalengd. Ekki liggja fyrir upplýsingar um að neinn hafi tekið tilboði nefndarinnar.

Í Silfrinu á RÚV í maí greindi Ragnar frá því að Guðjón krefðist milljarðs króna í skaðabætur en hann hefur áður vísað í dómafordæmi frá árinu 1983 þar sem mönnum voru dæmdar bætur upp á 535 þúsund krónur á dag, núvirt, vegna óréttmæts gæsluvarðhalds. Samsvarar það tæpum 880 milljónum króna fyrir fjögurra og hálfs árs fangelsisvist.

mbl.is