Seldist upp á þremur dögum í hlaupið

Hlaupið er frá Landamannalaugum í Þórsmörk.
Hlaupið er frá Landamannalaugum í Þórsmörk. Ljósmynd/Ólafur Þórisson

„Það seldist upp á þremur dögum í janúar,“ segir Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsinga- og samskiptastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur, um Laugavegshlaupið sem fer fram næsta laugardag 13. júli.

Þessa má geta að venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en met hlauptími á þessari 55 km leið í Laugavegshlaupi er 3 klukkustundir og 59 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir í kvennaflokki. 

Á ráslista er 551 hlaupari, 196 konur og 355 karlar, sem freistar þess að hlaupa úr Landmannalaugum í Þórsmörk. Þetta er í 23. sem hlaupið fer fram. 

Upphaflega voru 600 skráðir til leiks en aðeins hefur kvarnast upp úr fjöldanum frá áramótum. Engir biðlistar eru í boði þar sem þetta er krefjandi hlaup sem þarfnast mikils undirbúnings því er fólki ekki hleypt að á síðustu stundu, að sögn Önnu Lilju. 

Þátttakendur í ár eru af 30 mismunandi þjóðernum og margir þeirra hafa keppt áður eða um 30%. Einn Þjóðverji hleypur Laugaveginn í 10. skipti. Sá Íslendingur sem hefur hlaupið oftast gerir það í 19. skiptið í ár. „Það er einstakur árangur að klára þetta hlaup í öll skipti,“ segir hún um árangurinn.   

Frá Laugavegshlaupinu árið 2017.
Frá Laugavegshlaupinu árið 2017. Ljósmynd/Ólafur Þórisson

Íslenskir þátttakendur eru 345 talsins og frá öðrum löndum 206. Fjölmennastir erlendu gestanna eru Bandaríkjamenn en þeir eru 58 skráðir og næst flestir eru Bretar sem eru 24 talsins.

„Spáin gæti verið verri. Veðrið hefur verið svo gott undanfarið. Það gæti orðið smá þoka í Hrafntinnuskeri og engin rigning í upphafi og í lok hlaupsins. Það er frekar lágskýjað en þetta getur breyst með næstu spá en annars lítur þetta bara vel út,“ segir Anna Lilja bjartsýn.

Aðstæður ættu að vera góðar í hlaupinu til að mynda er óvenju lítill snjór á leiðinni en oft er talsverður snjór á Hrafntinnuskeri sem er hæsti punkturinn yfir sjávarmáli. Núna er lítill sem enginn snjór á þessu svæði.   

Hlaupið hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum, laugardaginn 13.júlí 2019 klukkan 9.00 og lýkur við skála Ferðafélagsins í Húsadal í Þórsmörk. Tímamörk eru í hlaupinu og þurfa hlauparar að yfirgefa drykkjarstöð við Álftavatn (22 km) á innan við 4 klst og drykkjarstöð við Emstruskála (34 km) á innan við 6 klst og 30 mínútum. 

Í dag fimmtudaginn 11. júlí milli 10 og 18 og á morgun föstudag 12. júlí milli 9 og 17 geta þátttakendur sótt keppnisgögn sín í Laugardalshöll.

Vefur hlaupsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert