Tengsl milli fjárhags og kynferðisofbeldis

20.2% stúlkna segjast hafa upplifað kynferðisofbeldi eða áreitni og 37,6 …
20.2% stúlkna segjast hafa upplifað kynferðisofbeldi eða áreitni og 37,6 % þeirra stúlkna sem upplifa fjárhag heimilisins slæman sögðu það sama. mbl.is/Hari

Unglingar sem upplifa fjárhagsstöðu heimilisins sem slæma eru líklegri en aðrir jafnaldrar þeirra til þess að verða fyrir kynferðisofbeldi. Þetta er eru niðurstöður rannsóknar sem þau Eygló Rúnarsdóttir, aðjúnkt á menntavísindasviði Háskóla Íslands, og Ársæll Arnarsson, prófessor á sama sviði, unnu á áhrifum kyns og fjárhagsstöðu á að unglingar verði fyrir kynferðisofbeldi. 

Rannsóknin er unnin er upp úr spurningalistum samevrópskrar rannsóknar, Heilsa og lífskjör skólabarna (HBSC) frá 2014, sem er lögð fyrir börn í 6., 8. og 10. bekk. Sá hluti spurninganna sem rannsókn þeirra Eyglóar og Ársæls byggir á var þó eingöngu lagður fyrir börn í 10. bekk hér á landi og svöruðu 3.618 börn, eða 85% könnuninni.

Niðurstöðurnar sýna að 14,6% ungmennanna höfðu upplifað einhvers konar kynferðislegt áreiti eða ofbeldi og voru stúlkur helmingi líklegri en drengir til að hafa upplifað slíkt, eða 20.2% stúlkna á móti 9.1% drengja.

37,6% stúlkna og 16,7% drengja

Þau börn sem upplifðu fjárhag fjölskyldunnar slæman voru líklegri til að hafa upplifað kynferðisofbeldi eða áreitni, en 29,9% þessa hóps sagðist hafa sætt kynferðisofbeldi eða áreitni. Af þeim stúlkum sem töldu fjárhag fjölskyldunnar slæman kváðust 37,6 % hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi og 16,7% drengja. Eygló bendir á að þó könnunin sýni að kynið hafi meira að segja en fjárhagsstaða þá sé niðurstaðan sú að fleiri drengir, líkt og stúlkur sem upplifi slæman fjárhag, segist hafa orðið fyrir kynferðislegu áreitni eða ofbeldi.

Eygló Rúnarsdóttir, aðjúnkt á menntavísindasviði Háskóla Íslands, segir rannsóknina sýna …
Eygló Rúnarsdóttir, aðjúnkt á menntavísindasviði Háskóla Íslands, segir rannsóknina sýna mikilvægi þess að styrkja og efla getu barna til að takast á við allskyns aðstæður í eigin lífi. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Niðurstöðurnar sýna okkur þó líka að krakkar sem upplifa fjárhagsstöðu fjölskyldunnar góða verða einnig fyrir ofbeldi, en líkurnar eru meiri hjá þeim upplifa hana slæma,“ segir Eygló í samtali við mbl.is, en rannsókn þeirra Ársæls birtist í maí í tímaritinu International Journal of Environmental Research and Public Health. „Þetta sýnir að börn sem upplifa fjárhag fjölskyldunnar erfiðan eru í viðkvæmari stöðu varðandi margt,“ segir Eygló og ítrekar að fjöldi foreldra standi þó vel við bakið á börnum sínum óháð fjárhag.

Segir ekkert um gerendurna

Hún bendir líka á að í rannsókninni sé ekki kannað hverjir gerendurnir séu og því ekki vitað hvort ofbeldið eigi sér stað inni á heimilum eða hvort að um jafningja sé að ræða. Því þurfi að fara varlega í túlkun á niðurstöðunum.

„Aðrar rannsóknir hafa sýnt að eftir því sem börnin eldast þá eykst tíðni þeirra sem segjast hafa sætt ofbeldi og túlkun flestra hefur verið á þá leið að hækkandi tíðni megi m.a. skýra með því að ungmennin séu að að prófa sig áfram í samböndum og fleiru,“ segir Eygló.

Hún hefur unnið með unglingum um árabil, m.a. sem grunnskólakennari og í æskulýðsstarfi hjá Reykjavíkurborg og segir alla sem vinna með ungu fólki hafa áhuga á líðan þess og umhverfi. „Minn persónulegi áhugi hefur beinst að því  hvernig samfélagið getur staðið með þeim börnum sem eiga á brattan að sækja af einhverjum orsökum og efnahagsleg staða er eitthvað sem börn ráða ekki við.“

Ungmenni geti þannig verið í aðstæðum sem þau hafi ekki skapað sér og samfélagið sé misduglegt að bregðast við slíku.

„Þetta gefur innsýn í að þeir sem vinna með börnum, fjölskylda og vinir og aðrir þeir sem eru í kringum börn þurfa að hlúa betur að þeim. Börn og unglingar hafa ekki sömu möguleika á að vera gerendur í eigin lífi og við berum öll ábyrgð á þeim,“ segir Eygló. Rannsóknin sýni því  þeim sem vinna með börnum mikilvægi þess að styrkja og efla getu barnanna til að takast á við allskyns aðstæður í eigin lífi.

 „Vonandi opnar þetta því augu fólks fyrir þeim aðstöðu- og möguleikamun sem þau búa við því það er vel þekkt að margir eru lengi að vinna úr og glíma við afleiðingar kynferðisofbeldis.“

mbl.is