Vill verkföll í haust að óbreyttu

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags.
Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Stjórn Framsýnar stéttarfélags samþykkti ályktun í gær þar sem skorað er á aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands að boða til verkfalla í haust standi samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) við ákvörðun sína um að mismuna starfsmönnum sveitarfélaga með eingreiðslu í sumar meðan ekki hafa náðst samningar.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Framsýn að þar sé átt við að starfsmenn sveitarfélaganna sem falla undir kjarasamning SNS við Starfsgreinasambandið verði undanskildir í þeim efnum. Þar segir enn fremur að mikil reiði sé á meðal starfsmanna sveitarfélaga í garð samninganefndar SNS.

Ályktun Framsýnar er svohljóðandi:

„Undanfarna mánuði hefur Starfsgreinasamband Íslands (SGS) sem Framsýn á aðild að, átt í kjarasamningsviðræðum við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) vegna félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum.

Því miður hafa viðræðurnar ekki skilað tilætluðum árangri. Í ljósi stöðunnar var ekkert annað í boði fyrir aðildarfélög SGS en að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara, enda gert ráð fyrir því í lögum takist viðsemjendum ekki að ná fram kjarasamningi, að deilunni sé vísað til ríkissáttasemjara til úrlausnar.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nú þegar samið við einstök sambönd og stéttarfélög um að þeirra félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum fái greiddar kr. 105.000 eingreiðslu miðað við fullt starf þann 1. ágúst 2019 sem greiðslu inn á væntanlegan kjarasamning. Það er til þeirra félaga og sambanda sem beðið hafa á kantinum meðan aðildarfélög SGS hafa barist um á hæl og hnakka við að reyna að landa nýjum kjarasamningi en án árangurs.

Þegar aðildarfélög SGS kröfðust þess að félagsmenn þeirra sem starfa hjá sveitarfélögunum fengju sömuleiðis umrædda eingreiðslu var því alfarið hafnað af hálfu samninganefndar sveitarfélaga með þeim rökum að Starfsgreinasambandið hefði vísað kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

Það er með öllu ólíðandi og samninganefnd SNS til vansa að skilja sína lægst launuðu starfsmenn eina eftir úti í kuldanum, það er þá sem starfa eftir kjarasamningi sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands. Framsýn trúir því ekki fyrr en á reynir, að sveitarstjórnarmenn í Þingeyjarsýslum hyggist koma fram við sitt frábæra starfsfólk með þessum hætti.

Framsýn stéttarfélag skorar á samninganefnd SNS að endurskoða sína afstöðu. Það verður einfaldlega ekki liðið að sveitarfélögin í landinu sýni starfsmönnum sem búa við það ömurlega hlutskipti að vera á lægstu kauptöxtunum slíka lítilsvirðingu.

Framsýn stéttarfélag skorar á aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands að slíta viðræðum við SNS og hefja undirbúning að sameiginlegum verkfallsaðgerðum í haust með það að markmiði að lama meðal annars allt skólastarf í leik- og grunnskólum landsins.

Það er einfaldlega ekki hægt að aðildarfélög SGS standi aðgerðarlaus á kantinum á sama tíma og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga ætlar kinnroðalaust að mismuna starfsmönnum sveitarfélaga. Skammist ykkar!“

mbl.is