Eitt barn greindist með E. coli í dag

Eitt barn til viðbótar hefur greinst með E. coli sýkingu.
Eitt barn til viðbótar hefur greinst með E. coli sýkingu. Ljósmynd/National Institute of Allergy and Infectious Diseases

Eins og hálfs árs gamalt barn var greint með E. coli sýkingu í dag. Þetta kemur fram á vefsíðu embættis landlæknis. Alls voru þrettán sýni rannsökuð en einungis greindist sýking í einu þeirra. Börn með E. coli sýkingu eru því orðin sautján talsins.

Faraldsfræðilegar upplýsingar hjá þessu barni liggja ekki fyrir á þessari stundu. Barnið verður í eftirliti hjá Barnaspítala hringsins.

Ekki alvarleg sýking

„Ég veit það ekki nákvæmlega en þetta er allavega ekki alvarlegt form [af sýkingu],“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir, í samtali við mbl.is, spurður um hversu alvarleg sýkingin væri sem greindist í dag. Hann segir að tilfellið í dag sé svipað og þau fjögur sem greindust í gær. 

„Það er algjörlega ótímabært að tjá sig nokkuð um það. Svo veit maður ekki hvað gerist um helgina,“ segir hann spurður hvort hann telji E. coli-faraldurinn vera á undanhaldi.

Fleiri sýni liggja enn órannsökuð og Þórólfur gerir ekki ráð fyrir því að það verði gert fyrr en á mánudag. „Þetta krefst mikils mannafla og sýnin safnast hugsanlega upp um helgina,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert