Hætta þróun á lyfi gegn Alzheimer

Þróun á nýju lyfi gegn Alzheimer hefur verið hætt.
Þróun á nýju lyfi gegn Alzheimer hefur verið hætt. mbl.is/Júlíus

Þróun á nýju lyfi gegn Alzheimer hefur verið hætt. Ástæðan er sú að aukaverkanir sem fylgja lyfinu eru taldar of miklar og óvíst er um gagnsemi þess. Þessi ákvörðun var tekin í gær eftir að að sérstök vísindanefnd yfirfór fyrstu niðurstöður og komst að fyrrgreindri niðurstöðu. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

„Miklar vonir voru bundnar við þessa lyfjatilraun þar sem Alzheimer sjúkdómurinn er flókinn og ein af stærstu áskorunum sem heilbrigðisvísindin standa frammi fyrir. Allar tilraunir til að þróa lyf gegn sjúkdómnum hafa verið árangurslausar.“ Þetta segir í tilkynningu og jafnframt er tekið fram að fyrirtækið „sé reiðubúið að deila vísindaniðurstöðum sínum með þeim sem leiti orsaka sjúkdómsins og leggja þannig sitt lóð á vogarskálarnar.“  

Fyrirtækin Amgen og Novartis unnu að þróun lyfsins.

„David Reese yfirmaður rannsókna og þróunar hjá Amgen segir að þetta séu mikil vonbrigði, bæði fyrir vísindin og milljónir einstaklinga sem sjúkdómurinn hafi áhrif á. Hann segist þó enn trúa því að efnahvatinn sem lyfið átti að hemja sé mikilvægur í þessu flókna samspili sem leiði til sjúkdómsins,“ segir ennfremur í tilkynningu.  

130 Íslendingar voru byrjaðir að taka lyfin en alls höfðu 500 undirgengist undirbúningsrannsóknir. 8 manns hjá Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna störfuðu við verkefnið, tveir læknar, tveir sálfræðingar og fjórir hjúkrunarfræðingar.

Haft verður samband við alla þátttakendur í rannsókninni og rætt við þá um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert