„Hún er á batavegi“

Aníta Katrín var þungt haldin og þurfti að fara í …
Aníta Katrín var þungt haldin og þurfti að fara í kviðskilun. Ljósmynd/Aðsend

„Hún er á batavegi. Nýrun eru farin að taka við sér. Við tökum einn dag í einu,“ segir Áslaug Fjóla Magnúsdóttir, móðir tæplega þriggja ára stúlku, sem hlaut nýrnabilun eftir að hafa smitast af E.coli í Efstadal um miðjan júní en einkennin komu fram í lok júní.

Stúlkan þurfti að fara í kviðskilunarvél og lá þungt haldin á sjúkrahúsi um tíma. Í dag fékk barnið að fara heim í helgarleyfi en mætir aftur á sjúkrahúsið á sunnudagsmorgun það er að segja ef henni hrakar ekki heima hjá sér. Áslaug er vongóðu um að hún útskrifist fyrir þriggja ára afmælið sem er 28. júlí næstkomandi.  

Barnið hefur verið á sjúkrahúsi í 16 daga en hún var lögð inn 26. júní. Síðustu þrjá daga hefur rofað til og líðan hennar hefur verið nokkuð stöðug og hún hefur ekki þurft að nota kviðskilunarvél. „Matarlistin er að koma og hún er að braggast,“ segir Áslaug.

Ekki er hægt að segja til um hvort hún eigi eftir að ná sér alveg eftir eitrunina. „Það er ekki hægt að segja til um það strax hvort hún nái sér að fullu eftir þessa eitrun. Læknarnir segja að það sé hægt í fyrsta lagi eftir ár. Næsta árið verður hún undir eftirliti,“ segir Áslaug.  

Gulnaði upp í fanginu á föður sínum

Síðustu tæpu þrjár vikur hafa verið fjölskyldunni vægast sagt erfiðar. Talsverðan tíma tók að greina E.coli-bakterína í barninu og á meðan þjáðist hún af krömpum og miklum verkjum. Þegar nýrun biluðu kom það fljótlega í ljós. „Þetta var hræðilegu tími,“ segir Áslaug og heldur áfram „á sjötta degi eftir að einkenni koma fram með niðurgangi og miklum verkjum gefa nýrun sig mjög snögglega sunnudaginn 30. júní í miklum magakrampakasti. Ég sé hana gulna upp í fanginu á föður sínum, þá var þetta að gerast. Sem betur fer vorum við á sjúkrahúsinu og læknar og hjúkrunarfólk þyrpist að og allt fer í gang,“ segir Áslaug.

Aníta Katrín í Efstadal.
Aníta Katrín í Efstadal. Ljósmynd/Aðsend

Á þessum tíma fer hún í bráðaaðgerð. Í henni var kviðskilunarlegg komið fyrir í kviðarholinu á henni. Fyrsta sólahringinn var hún á gjörgæsludeild því kviðskilurnarleggurinn þurfti að gróa áður en hægt var að nota kviðskilunarvél til að hreinsa það sem nýrun eiga að sjá um. „Það varð að gera kviðskilunina handvirkt fyrst um sinn ef svo má að orði komast til að bjarga lífi hennar áður en hægt var að tengja hana við vélina,“ segir Áslaug. Þegar nýrun biluðu varð bjúgsöfnun við hjarta og önnur líffæri en heilinn slapp.  

Áslaug bendir á að HUS eitrun af völdum E.coli-bakteríunnar sé lífshættuleg, dæmi eru um að börn hafi látist af völdum hennar. Bráð nýrnabilun og blóðleysi stafar meðal annars af því að  E.coli gefur frá sér eitur sem lætur blóðið storkna í æðum líkamans, sérstaklega í nýrunum.

17 börn hafa greinst með E.coli-bakteríuna á síðustu dögum. Áslaug hvetur foreldra þeirra barna að hafa samband við sig. „Við erum að ganga í gegnum það sama og það er alltaf gott að miðla af reynslunni,“ segir hún og er feginn að komast loksins heim til sín í skamma stund með dóttur sína, Anítu Katrínu.   

mbl.is