Segir mikilvægt að sýna tillitssemi

Traktorinn sem Kurt Frederiksen keyrir nú umhverfis landið á.
Traktorinn sem Kurt Frederiksen keyrir nú umhverfis landið á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danski rithöfundurinn Kurt L. Frederiksen, sem ekur nú hringinn í kringum landið á traktor með húsvagn í eftirdragi, er ekki fyrstur til að gera slíkt samkvæmt Samgöngustofu. 

Víkurfréttir greindu frá því árið 2015 að hjónin Helgi Ragnar og Júlía Halldóra úr Vogunum hafi einmitt farið í álíka óvenjulega hringferð í kringum landið. Óku þau þá um á 60 ára gömlum traktor og drógu á eftir sér heimasmíðaða kerru sem hýsti svefnherbergi á meðan á ferðalaginu stóð. 

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í öryggis- og fræðslumálum hjá Samgöngustofu, segir mikilvægt að dráttarvélar uppfylli reglugerðir um öryggisbúnað eins og ljós og hemlabúnað, ef fólk hyggst leggja í ferðalag á slíkum tækjum. Þá þurfi dráttarvélarnar einnig að vera með skráningu frá heimalandi sínu. 

Tillitssemi og varúð er lykillinn

Kolbrún segir Vegagerðina og sveitarfélögin eftir atvikum vera veghaldara og hafa sum sveitarfélög gefið upp ákveðna tíma þar sem bannað er að aka dráttarvélum og nefnir hún í því sambandi umferðaþunga tíma í Reykjavík. 

Hún segir það þó alls ekki víst að það sama eigi við á landsbyggðinni og segist ekki fá betur séð en að ekkert sé því til fyrirstöðu að fólk aki á dráttarvélum, svo lengi sem það fylgi almennum umferðarlögum og nefnir hún þá sérstaklega 4. grein sem fjallar um tillitssemi og varúð vegfarenda. 

„Dráttarvélin hægir sannarlega á umferðinni og þá er mikilvægt að gefa stefnuljós og hleypa bílum framúr við öruggar aðstæður. Of hægur akstur getur valdið hættu eins og framúrakstri við hættulegar aðstæður,“ segir Kolbrún. 

Þá segir Kolbrún dráttarvélar þurfa að hafa akstursheimild og þegar vélin komi hingað til landsins taki íslensk lög og reglur við og getur lögregla því stöðvað ökutækið sé eitthvað ábótavant. 

Kolbrún segir enn fremur að ólíkt því sem eigi við dráttarvélar sem hingað eru fluttar inn og skrásettar hérlendis, þurfa dráttarvélar skrásettar erlendis ekki að fara í sérstaka skoðun við komu til landsins, nema þá að tækið verði skrásett og tekið til almennrar notkunar á Íslandi.

mbl.is