„Þeir eru að selja skortinn“

Andri Snær Magnason segir að forystumenn í fyrirtækjum í opinberri …
Andri Snær Magnason segir að forystumenn í fyrirtækjum í opinberri eigu þurfi að muna fyrir hvern þeir eru að vinna. mbl.is/Golli

Ef þeir eru að rugla í almenningi, hóta orkuskorti, skömmtun eða öðru í stað þess að standa vörð um orkuöryggi almennings verður að minna þá á það hvern þeir vinna fyrir,“ segir Andri Snær Magnason rithöfundur. Hann furðar sig stórlega á því sem hann kallar nýtt „PR-átak“ HS Orku, VesturVerks, Landsnets og RARIK um að orkan sé að verða búin.

VesturVerk og HS Orka eru í einkaeigu en Landsnet og RARIK í ríkiseigu og annast lagningu rafmagnslína um land allt. VesturVerk er það orkufyrirtæki sem mun annast framkvæmd Hvalárvirkjunar í Árneshreppi, sem hefur verið umdeild. 

Andri tilgreinir nýleg dæmi úr fjölmiðlum og af Facebook, þar sem VesturVerk hefur verið að kosta dreifingu á fullyrðingum um yfirvofandi orkuskort. „Þeir eru allir að tyggja sömu línurnar um skort á orku. Þeir eru að selja skortinn, aðeins vegna þess að þeir vilja fá að virkja meira til að selja meira,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Á sama tíma er Landsnet að offjárfesta í rafmagnslínum til að þjóna Bitcoin-verum og kísilverum. Íbúar þessa lands hafa enga hagsmuni af þessu,“ segir hann. „Það myndi enginn vilja virkja Hvalá ef hann vissi hvað Bitcoin-gröftur væri.“

VesturVerk kostar dreifingu frétta sem renna stoðum undir málflutning þess …
VesturVerk kostar dreifingu frétta sem renna stoðum undir málflutning þess um að orkuskortur sé yfirvofandi. Skjáskot/Andri Snær

„Og HS Orka á ekkert með að tjá sig um almenning og orkuskort, löngun þeirra til að selja hverjum sem er orku er óendanleg, Bitcoin-framleiðendum, kísilverum, bókstaflega hverjum sem er og ég meina það ekki í yfirfærðri merkingu. Þeir hafa óendanlega löngun til að virkja og selja hverjum sem er orku,“ segir Andri.

Menn einfaldlega ekki að segja satt

Aflþörf almennings á Íslandi er um 300 MW. Uppsett afl sem aðgangur er að er um 2.700 MW. Heimilin í landinu nota þannig rúm 10% af orkunni í landinu. Bitcoin-gröftur á Íslandi notar um 150 MW. 

„Ef uppsett afl er 2.700 MW hér á landi, þá er langt í orkuskort hjá almenningi,“ segir hann. „Að hóta fólki orkuskorti er annaðhvort ósvífni eða dæmi um að orkumálin hér séu stjórnlaus.“

VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja …
VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja stíflur við fimm fjallavötn. mbl.is/Golli

„Þess vegna, ef almenningi er talin trú um að næsta virkjun sé vegna þeirra - þá eru menn einfaldlega ekki að segja satt og þeir eru ekki að þjóna því fólki sem þeim er trúað fyrir. Þá hafa þeir hafa brugðist okkur og skyldum sínum,“ segir Andri.

Hann er að tala um ummæli Tryggva Þórs Haraldssonar rafmagnsveitustjóra hjá RARIK, sem hefur varað við yfirvofandi orkuskorti, ekki síst í ljósi viðvarana frá Landsneti um að þessi orkuskortur sé í vændum.

Bæði þessu fyrirtæki eru í opinberri eigu og sjá um að leggja flutningslínur fyrir rafmagn. Andri segir að minna verði menn á það hverjum þeir þjóna, sem sagt almenningi.

„Framleiðsla Bitcoin er formleg sönnun þess að það skiptir engu máli hverjum orkan er seld. Þetta er fullkomlega ógegnsætt og ábyrgðarlaust og Bitcoin-framleiðsla er í eðli sínu eins og djöfullinn sjálfur hafi búið þetta til. Þetta er stærðfræðilega botnlaus hít: þó að þú setjir alla orku í heiminum í að framleiða Bitcoin, þá minnkar ekki orkuþörfin,“ segir Andri, sem vill meina að með því að taka undir viðvaranir orkufyrirtækja um orkuskort gerist forstjórar og forsvarsmenn fyrirtækja í opinberri eigu meðsekir um þá villandi orðræðu sem höfð sé uppi um málefnið af orkufyrirtækjum.

Andri skrifar Facebook-færslu um málið sem hefur vakið mikil viðbrögð. Í athugasemd við færsluna segir Andri: „Kjaftæðið er svo algert og fullkomið. Auðveldasta lausnin er að banna orkufyrirtækjum að brenna náttúru til að búa til sýndarmynt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert