Vegagerðin kærir ákvörðunina líka

Frá Kjalarnesi.
Frá Kjalarnesi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vegagerðin hefur ákveðið að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Áður hafði bæjarráð Akranesskaupstaðar falið bæjarstjóra að kæra ákvörðunina.

Fram kemur í fréttatilkynningu að Vegagerðin telji ákvörðunina ekki í samræmi við fyrri fordæmi og túlkun laga um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar matsskyldu framkvæmda þegar verið sé að breikka veg úr tveggja akreina vegi í 2+1 veg.

Fyrir vikið sé nauðsynlegt að fá frekari umfjöllun um ákvörðunina með tilliti til fordæmisgildis gagnvart öðrum sambærilegum framkvæmdum. Framsetning ákvörðunarinnar geti að mati Vegagerðarinnar valdið vafa um hvernig meðhöndla eigi aðrar slíkar framkvæmdir með tilliti til mats á umhverfisáhrifum. Vegagerðin muni samhliða flýta undirbúningi verkefnisins eins og kostur er þannig að sem minnst töf verði á framkvæmdum.

mbl.is