Vinsældir fésbókar stöðugar

Facebook þarf litlar áhyggjur að hafa af Íslandsmarkaði.
Facebook þarf litlar áhyggjur að hafa af Íslandsmarkaði. AFP

92% landsmanna, 18 ára og eldri, nota Facebook reglulega og er miðillinn sem fyrr vinsælasti samfélagsmiðillinn á Íslandi. Þetta kemur fram í könnun MMR á samfélagsmiðlanotkun landans sem var framkvæmd dagana 14. til 16. maí en birt í dag.

Hlutfall fésbókarnotenda helst nokkuð óbreytt frá samskonar könnun í fyrra, og sömu sögu er að segja af Snapchat, næstvinsælasta miðlinum. 64% landsmanna snappa reglulega. Þá notar helmingur Spotify, svipað hlutfall og í fyrra en tónlistarveitan sænska tók stökk milli áranna 2016 og 2017 þar sem hlutfall þjóðarinnar, sem nýtir sér þjónustuna, fór úr 26% í 51%.

Youtube fylgir fast á hæla Snapchat og er þriðji mest notaði miðillinn. Um 61% landsmanna segjast reglulega kíkja á Youtube en fækkar þeim um fjögur prósentustig. Helmingur aðspurðra notar myndaforritið Instagram reglulega og fjölgar þeim nokkuð frá fyrra ári.

Eins og við var að búast dregur nokkuð úr notkun samfélagsmiðla með aldrinum. Munurinn er þó áberandi minni hjá Facebook, þjóðarmiðlinum, en öðrum. Þannig er munur á notkun Facebook innan skekkjumarka, 92-95% í aldurshópnum 18-49 ára, en meðal þátttakenda 68 ára og eldri er hlutfallið 79%.

Til samanburðar nota 89% 18-29 ára svarenda Snapchat reglulega en aðeins 28% þeirra í elsta aldurshópnum, 68 ára og eldri.

978 einstaklingar 18 ára og eldri svöruðu könnuninni en þeir voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert