Ákveðinn hópur sem ekki gái að sér

Sárasótt er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu er nefnist Treponema …
Sárasótt er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu er nefnist Treponema pallidum. Fyrstu einkenni sárasóttar eru sár á þeim stað sem bakterían komst í snertingu við, oftast á kynfærum. Sárasótt er greind með blóðprufu sem er hægt að láta taka hjá öllum læknum. mbl.is/ÞÖK

„Fólk er bara ekki að passa sig í kynlífi. Það er einföld leið til að koma í veg fyrir sýkingar og það er að nota smokk. Það er ákveðinn hópur sem er ekki að gá að sér,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá embætti landlæknis, í samtali við mbl.is um það hvers vegna Íslendingar virðast vera Evrópumethafar í kynsjúkdómasmitum nánast á hverju ári.

Í nýrri skýrslu Sóttvarnarstofnunar Evrópu (EDC) kemur fram að hlutfall tilkynntra tilfalla af sárasótt hefur tífaldast á Íslandi á sjö ára tímabili frá árinu 2010 til 2017. Greind sárasóttartilfelli mældust á Íslandi í fyrra 15,4 á hverja 100.000 íbúa og er það Evrópumet. Meðaltalið í Evrópusambands- og EES-ríkjum eru 7,1 tilfelli á hverja 100.000 íbúa.

Aukning í lekandasýkingum

„Við höfum verið að benda á þetta núna í nokkur ár, aukningu í kynsjúkdómasmitum og þar á meðal í sárasótt. Það var fækkun í fyrra miðað við árið 2017 en það sem af er ári þá er hún aftur að sækja í sig veðrið,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Við höfum margoft birt upplýsingar um þetta hér á landi og hvatt til aðgerða í tengslum við kynsjúkdóma. Það hefur einnig verið aukning í lekandasýkingum og svo höfum við verið Evrópumeistarar í klamydíusýkingum. Það eru þó heldur færri sýkingar það sem af er ári heldur en í fyrra þannig það er alltaf sveifla milli ára.“

Mest samkynhneigðir karlmenn á miðjum aldri

Hvort að menningin á Íslandi þegar kemur að notkun smokka sé öðruvísi en annars staðar í Evrópu getur Þórólfur ekki sagt til um og telur ekki hægt að túlka tölfræðina meira en að ljóst er að það er ákveðinn hópur sem er ekki að passa þetta nógu vel.

„Við birtum á yfirlýsingu okkar yfirlit yfir kyn og kynhegðun og annað. Það er augljóst að það eru aðallega karlmenn á miðjum aldri sem fá sárasótt og að megninu til samkynhneigðir karlmenn. Það sama er uppi á teningunum í Evrópu,“ segir hann og bætir við að lokum:

„Þetta er bara spurning um að passa sig í kynlífinu. Þetta geta verið alvarlegar sýkingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert