Líðan mannsins mjög góð eftir atvikum

Maðurinn sem varð fyrir stunguárás á Neskaupstað á miðvikudag var …
Maðurinn sem varð fyrir stunguárás á Neskaupstað á miðvikudag var fluttur með þyrlu á Landspítala þar sem hann undirgekkst aðgerð. mbl.is/Þórður

Líðan mannsins sem varð fyrir hnífstunguárás á Neskaupstað á miðvikudagskvöld og undirgekkst aðgerð á Landspítalanum í gær er mjög góð eftir atvikum. Lögreglumenn frá Austurlandi ferðuðust suður til Reykjavíkur og hafa tekið bráðabirgðaskýrslu af honum.

Þetta staðfestir Jónas Wilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, í samtali við mbl.is

Þá segir hann rannsókninni miða mjög vel en málið sé þó á viðkvæmu stigi og því ekki hægt að gefa nánari upplýsingar um málsatvik eða segja til um hvenær rannsókn lyki.

Byggt á almannahagsmunum

Lögregla rannsakar málið sem tilraun til manndráps eða stórfellda líkamsárás og er maður um þrítugt grunaður um að hafa stungið fórnarlambið ítrekað í hönd og fótlegg. Hann hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald af Héraðsdómi Austurlands.

Krafa um gæsluvarðhald yfir hinum grunaða var aðallega byggð á því að óverjandi væri með tilliti til meints brots mannsins að hann gangi laus með tilliti til almannahagsmuna. Til vara var gæsluvarðhalds krafist með tilliti til rannsóknarhagsmuna. Þetta segir Helgi Jensson saksóknari í samtali við mbl.is.

Búið að kæra gæsluvarðhaldsúrskurðinn

Verjandi mannsins, Gísli Auðbergsson, staðfestir í samtali við mbl.is að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn hafi verið kærður til Landsréttar. Héraðsdómur Austurlands mun senda kæruna og fylgigögn til Landsréttar eftir helgi. Þá verður ákæruvaldinu líklegast gefinn sólarhringur til að svara kærunni.

mbl.is