„Mikill sigur fyrir Íslendinga“

Öræfajökull.
Öræfajökull. mbl.is/RAX

Framkvæmdastjóri samtakanna Vinir Vatnajökuls segir það mikið fagnaðarefni að Vatnajökulsþjóðgarður hafi verið tekinn á heimsminjaskrá UNESCO. Samtökin eru tíu ára um þessar mundir og veittu af því tilefni tíu milljón króna styrk til vinnslu umsóknarinnar til UNESCO.

Kristbjörg Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri Vina Vatnajökuls, segir styrkinn til umsóknarvinnslunnar vera lið í þeirri stefnu samtakanna að efla Vatnajökulsþjóðgarð og svæðið í kring. Samtökin hafi á undanförnum árum látið fleiri hundruð milljónir í verkefni sem miða að því að efla vernd náttúru og menningar á svæðinu. 

Kristbjörg segir það því einstaklega ánægjulegt að garðurinn hafi nú fengið eina mestu gæðavottun sem náttúrusvæðum getur hlotnast, en garðurinn hefur nú bæst í hóp þjóðgarða á borð við Yosemite og Yellowstone í Bandaríkjunum og Galapagos í Ekvador.

Ekki lengur bara í höndum Íslendinga

„Við erum mjög ánægð. Þetta er mikil virði. Þetta gerir það líka að verkum að það verður mikið auðveldara að gæta þess lands sem þarna er og passa upp á það,“ segir Kristbjörg.

„Núna er þetta ekki lengur bara í höndum Íslendinga í rauninni heldur er garðurinn nú þessi alheimseign. Það gerir það líka að verkum að þó að einhverjum detti í hug að nýta svæðið, í því skyni að ætla sér einhvern skammtíma gróða, þá myndi það ekki takast,“ bætir hún við.

„Þetta er á allan hátt mjög gott. Það eru ýmis ákvæði sem fylgja því að vera á heimsminjaskrá, hvort sem það er náttúruvernd eða menningarvernd. Þetta er mikill sigur fyrir Íslendinga og í raun heiminn.“

Aðspurð segist Kristbjörg varla geta hugsað sér betri 10 ára afmælisgjöf fyrir Vini Vatnajökuls. 

„Þetta er virkilega skemmtileg afmælisgjöf fyrir samtökin, alveg virkilega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert