Par datt af hjólum sínum

Nokkuð var um að för ökumanna væri stöðvuð vegna gruns …
Nokkuð var um að för ökumanna væri stöðvuð vegna gruns um akstur bifreiða undir áhrifum áfengis og fíkniefna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um reiðhjólaslys í Laugardal á ellefta tímanum í gærkvöldi. Þar hafði par verið að hjóla er þau duttu bæði af hjólum sínum og kenndi konan eymsla í öxl eftir fallið. Hún var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á slysadeild.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Tilkynnt var um umferðaróhapp í Árbæ á áttunda tímanum í gærkvöldi þar sem árekstur hafði orðið milli bifreiðar og vespu. Farþegi vespunnar féll í götuna en meiðsl hans voru minniháttar þrátt fyrir að hann hefði ekki haft hjálm á höfði.

Nokkuð var um að för ökumanna væri stöðvuð vegna gruns um akstur bifreiða undir áhrifum áfengis og fíkniefna, auk þess sem einn ökumaður var stöðvaður eftir hraðamælingu á Reykjanesbraut í Kópavogi. Hann mældist á 111 km hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 80, en ökumaðurinn reyndist auk þess sviptur ökuréttindum.

Þá voru afskipti höfð af þremur mönnum um klukkan 18 í gær, einum í Breiðholti og tveimur í Kópavogi, en þeir voru grunaðir um þjófnað eða hnupl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert