Þorbergur „hringaði“ keppinauta sína

Þorbergur Ingi kemur í mark fyrstur allra keppenda þriðja árið …
Þorbergur Ingi kemur í mark fyrstur allra keppenda þriðja árið í röð. Ljósmynd/Aðsend

Þorbergur Ingi Jónsson kom fyrstur allra í mark í Laugavegshlaupinu 2019. Afrekið er ekki einungis magnað fyrir þær sakir að hann var að sigra keppnina þriðja árið í röð heldur hljóp hann tvöfalt fleiri kílómetra en aðrir keppendur í ár.

Ofurhlauparinn ákvað að setja markið enn hærra í ár og hljóp brautina fram og til baka. Hann var því þegar búinn að hlaupa Laugaveginn einu sinni þegar keppnin hófst formlega klukkan níu í morgun. Hlaupaleiðin er 55 kílómetrar og samtals hljóp hann því 110 kílómetra.

Þrátt fyrir það kom Þorbergur fyrstur allra í mark eftir 4 klukkustundir 32 mínútur og 15 sekúndur. Annar keppandi í mark var Örvar Steingrímsson á tímanum 04:44:39.

Örvar Steingrímsson fagnaði vel og innilega þegar hann kom í …
Örvar Steingrímsson fagnaði vel og innilega þegar hann kom í mark. Ljósmynd/Aðsend

Keppnin um þriðja sæti var framan af gríðarlega spennandi og þegar þrír kílómetrar voru eftir voru þeir Snorri Björnsson og Birgir Már Vigfússon hnífjafnir. Birgir Már setti þá í næsta gír, náði afgerandi forystu og kom í mark á tímanum 04:55:55.

Birgir Már Vigfússon hafði betur í baráttunni um þriðja sætið.
Birgir Már Vigfússon hafði betur í baráttunni um þriðja sætið. Ljósmynd/Aðsend

Snorri hafnaði því í fjórða sæti sem verður að teljast vel af sér vikið þar sem um hans fyrsta hlaup var að ræða og bæði yngri og reynsluminni en Birgir. Snorri kom í mark á tímanum 04:56:33.

Anna Berglind Pálmadóttir sigraði kvennaflokkinn í ár og kom í mark eftir 5 klukkustundir 23 mínútur og 59 sekúndur sem er sjötti besti tími í kvennaflokki í hlaupinu frá upphafi og þriðji besti meðal íslenskra kvenna.

Anna Berglind Pálmadóttir kemur í mark.
Anna Berglind Pálmadóttir kemur í mark. Ljósmynd/Aðsend

Elísabet Margeirsdóttir hafnaði í öðru sæti í kvennaflokki og kom í mark eftir 5 klukkustundir 56 mínútur og 16 sekúndur. Hún hljóp Laugaveginn einnig í nótt eins og Þorbergur og því um frábæran árangur að ræða hjá Elísabetu. Í þriðja sæti var Silke Ursula Eiserbeck frá Þýskalandi á tímanum 5:59:37. 

Aðstæður voru góðar á hlaupaleiðinni í dag, skýjað og sól öðru hvoru og hægur vindur. Óvenjulega lítill snjór var á Hrafntinnuskeri sem er hæsti punktur leiðarinnar. 

Gert er ráð fyrir því að allir keppendur verði komnir í mark klukkan 18:30 og þá verða staðfest úrslit sett inn á vef hlaupsins. Myndir og fróðleik má sjá á Facebook-síðu Laugavegshlaupsins.

Úrslit í rauntíma.

Ofurhlauparinn Elísabet Margeirsdóttir kemur í mark eftir tvöfalt hlaup.
Ofurhlauparinn Elísabet Margeirsdóttir kemur í mark eftir tvöfalt hlaup. Ljósmynd/Aðsend
Þjóðverjinn Silke Ursula Eiserbeck endaði í þriðja sæti í kvennaflokki …
Þjóðverjinn Silke Ursula Eiserbeck endaði í þriðja sæti í kvennaflokki í ár. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert