Fjölveikur fangi sækir um náðun öðru sinni

Formaður Afstöðu, félags fanga, segir engan átta sig á því …
Formaður Afstöðu, félags fanga, segir engan átta sig á því hvers vegna maðurinn sé í fangelsi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögmaður 82 ára gamals fanga hefur í tvígang sótt um náðun fyrir hann á grundvelli slæms heilsufars hans, en hann er með kransæðasjúkdóm, háþrýsting, hjartalokusjúkdóm, sykursýki og slæm útbrot, auk þess sem hann er blindur á báðum augum.

Maðurinn þarf því aðstoð við flest dagleg verk, sem sinnt er af fangavörðum og samföngum hans í fangelsinu á Akureyri, að því er fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Maðurinn var í fyrrasumar dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni. Lögmaður hans sótti þá um náðun á grundvelli heilsufars en rökin voru ekki sögð nógu sterk og náðuninni hafnað. Í síðasta mánuði var aftur sótt um náðun og fylgdu umsókninni ný læknisvottorð.

Formaður Afstöðu, félags fanga, segir engan átta sig á því hvers vegna maðurinn sé í fangelsi. Hann hafi framið glæp en það breyti því ekki að maður í hans ástandi eigi að vera vistaður í viðeigandi stofnun.

„Mikið veikir einstaklingar, geðfatlaðir eða þroskaskertir eða eldri borgarar eiga að vera vistaðir á viðeigandi stofnun þar sem er hjúkrunarfólk, það er ekki boðlegt að þeir séu í lokuðu öryggisfangelsi,“ sagði Guðmundur Ingi Þóroddsson í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.

mbl.is