„Fólk sendir mér fingurinn allan daginn“

„Það sendir mér fingurinn allan daginn, ekki miðjufingurinn heldur þumalfingurinn,“
„Það sendir mér fingurinn allan daginn, ekki miðjufingurinn heldur þumalfingurinn,“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fólk hefur tekið vel á móti mér og er afskaplega indælt. Það sendir mér fingurinn allan daginn, ekki miðjufingurinn heldur þumalfingurinn,“ segir danski rithöfundurinn Kurt L. Frederiksen hlæjandi í samtali við mbl.is. Hann er að ferðast hringinn í kring um Ísland á traktor með húsvagn í eftirdragi.

Kurt hefur verið staddur á Íslandi í þrjár og hálfa viku að keyra hringinn í kringum Ísland og ætlar að dvelja hér í eina og hálfa viku til viðbótar.

Þegar hann komst á eftirlaunaaldur ákvað hann að það væri kominn tími til að finna sér áhugamál. Hann hugleiddi það að byrja að stunda golf eða göngutúra en ákvað á endanum að elta langþráðan draum um að ferðast um Norðurlöndin og víðar á traktor.

Allt öðruvísi upplifun en að ferðast um á bíl

„Þetta hefur verið frábært á alla vegu. Ég hef verið heppinn með veður og félagsskap,“ segir Kurt sem var ekki langt frá Seljalandsfossi þegar mbl.is náði sambandi við hann.

„Ég fer auðvitað hægt yfir en það er einmitt tilgangurinn með ferðalaginu. Að ferðast og njóta náttúrunnar og umhverfisins. Ég hitti nýtt fólk á hverjum degi af því ég er á traktornum. Ef ég væri að ferðast um á bíl þá væri upplifunin allt öðruvísi.“

„Ef ég væri að ferðast um á bíl þá væri …
„Ef ég væri að ferðast um á bíl þá væri upplifunin allt öðruvísi.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Traktorinn nær mest 25 kílómetrum á klukkustund og Kurt ekur um 100 til 150 kílómetra á dag eftir því hvað hann sér á leiðinni og hvar hann stoppar. Hann er duglegur að taka pásur inn á milli og kynnast fólki.

„Í gær hitti ég tvo unga menn frá Kanada og bauð þeim kaffisopa inni í vagninum. Þegar þú hringdir í mig áðan var ég svo að spjalla við danska fjölskyldu sem ég hitti. Margir stoppa mig og vilja taka myndir af mér og traktornum.“

Kemur sér vel að ferðast ekki með eiginkonunni

Hann saknar þó vissulega eiginkonu sinnar sem bíður hans heima í Danmörku. En þegar hann er spurður af hverju hann hafi ekki boðið henni með til Íslands stendur ekki á svörum:

„Það er bara eitt sæti í traktornum sjáðu til og það er bannað að keyra með farþega í húsvagninum. Svo það er sem betur fer útilokað því ef hún væri að ferðast með mér myndum við líklegast skilja fljótt. Það er ekki gaman að keyra með aftursætisbílstjóra,“ segir hann hlæjandi.

„En já ég sakna hennar en ég hef áður farið í langt ferðalag á traktornum þannig hún er vön að sjá á eftir mér,“ bætir hann við að lokum áður en hann heldur aftur að stað á leið austur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert