Jafnréttisbarátta á torgi Neskaupstaðar

Torgið sem hingað til hefur verið nafnlaust mun fá nafnið …
Torgið sem hingað til hefur verið nafnlaust mun fá nafnið Önnutorg. Ljósmynd/Hjalti Kristjánsson

„Við erum mjög ánægðar með þetta og vonum bara að bæjarráð Fjarðabyggðar og bæjarstjórn haldi áfram að skíra torg eftir merkum konum. Það eru nú fleiri en eitt torg í Fjarðabyggð og maður veit aldrei hvað gerist,“ segir Helga Magnea Steinsson, formaður Kvenfélagsins Nönnu í Neskaupstað, í samtali við mbl.is.

Félagið lagði til að torgið við Stekkjargötu og Hólsgötu í Neskaupstað yrði nefnt Önnutorg í höfuðið á Önnu S. Jónsdóttur sem sat fyrst kvenna í bæjarstjórn Neskaupsstaðar árin 1950 til 1954. Bæjarráð samþykkti í gær tillöguna.

Helga Magnea segir félaginu hafi þótt viðeigandi að gefa torginu nafn þar sem það hefur verið nafnlaust og væri verið að endurgera það. Þá hafi verið fullt tilefni til þess að nefna það í höfuðið á Önnu. „Hér eru hin og þessi torg og gaman að gefa þeim skemmtileg heiti.“

Önnutorg.
Önnutorg. Ljósmynd/Hjalti Kristjánsson

„Þetta byrjaði á því að það væri verið taka þetta torg í gegn og svo höfum við fyrirmyndir af svona torgum um allt land,“ segir formaðurinn. „Við erum mjög hrifnar af því – kvenfélagskonur – að það er verið að skíra torg um allt land í höfuðið á merkum konum. Þetta er auðvitað bara hluti af jafnréttisbaráttu kvenna. Þannig að maður getur ekki verið annað en stolt þegar slíkt gerist.“

Mikið afmælisár Neskaupstaðar

Spurð hvort kvenfélagið muni standa fyrri sérstakum fögnuði á Önnutorgi, svarar Helga Magnea: „Það er örugglega góð hugmynd. Við erum núna allar á fullu að undirbúa 85 ára afmæli lystigarðsins fyrsta ágúst og mér skilst að það verði nú formlega á þeim degi sem þess verður getið, þá mun þetta torg formlega fá nafn.“

„Svo er líka annað bærinn, Neskaupstaður, 90 ára kaupstaðarafmæli á þessu ári. Þannig að ég held að þetta verði sett í einn pakka,“ segir hún. „Þetta er svolítið stórt ár á þessum stað.“

mbl.is