Mikilvæg réttarbót hjá Airbnb

Breki segir viðskiptavini Airbnb á Íslandi og annars staðar í …
Breki segir viðskiptavini Airbnb á Íslandi og annars staðar í álfunni munu njóta góðs af breytingunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrirtækið Airbnb hefur gert samkomulag við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að farið verði að kröfum framkvæmdastjórnarinnar og neytendayfirvalda í Evrópu um bætta neytendavernd viðskiptavina Airbnb. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á heimasíðu Neytendastofu, sem aftur vísar í upprunalega tilkynningu á vef Evrópusambandsins.

Meðal helstu atriða eru að notendur, sem sem hyggjast taka íbúð á leigu á Airbnb, sjá heildarverð íbúðarinnar strax í niðurstöðu leitar sem á að gera samanburð skýrari. Ýmis gjöld, svo sem þrifgjald, bókunargjald og skattar, leggjast oft á leiguverð til viðbótar við hefðbundið gjald fyrir hverja nótt. Nú á dögum eru þessi gjöld hins vegar ekki sýnileg þegar neytendur fá upp lista af íbúðum, heldur er þeim aðeins raðað eftir fasta gjaldinu á hverja nótt.

Airbnb mun merkja greinilega hvort íbúð er í útleigu einstaklings, eða fyrirtækis sem stundar slíka útleigu í atvinnuskyni. Þá hafa neytendur möguleika á að stefna Airbnb fyrir dómstólum í heimalandi sínu, og skal Airbnb taka það skýrt fram á vefsíðu sinni. Einnig skuli fyrirtækið virða rétt leigjenda til að stefna gestgjöfum, verði þeir fyrir tjóni meðan á leigutíma stendur, til dæmis vegna myglu.

Enn ein neytendaréttarbótin frá Evrópu

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að hér sé um mikla réttarbót fyrir neytendur að ræða, íslenska sem evrópska. Nefnir hann sérstaklega að mikilvægt sé að endanlegt verð liggi fyrir á vefsíðu þegar menn bera saman íbúðir.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það hefur verið eilífðarvandamál hjá okkur, ekki bara vegna Airbnb, heldur víða að neytendur hafi ekki upplýsingar um ýmis aukagjöld,“ segir Breki og nefnir að tíðkast hafi hjá sumum flugfélögum áður fyrr að sköttum og öðrum gjöldum hafi verið bætt inn í verð í lok bókunar. Síðar var það bannað með lögum og nú hafa neytendur upplýsingar um endanlegt verð strax þegar þeir gera samanburð á flugferðum.

Breki segist ekki viss hvort reglugerðin taki strax gildi á Íslandi, eða hvort leiða þurfi hana í lög. Fyrir Íslendinga sem leigja íbúðir í Evrópu hafi hún þó tekið gildi, og Íslendingar séu jú meira í að leigja íbúðir erlendis en í eigin landi.

Þá sé einnig frábært að Airbnb viðurkenni nú Rómarsamþykktina, sem Breki segir grunninn að neytendalöggjöf Evrópusambandsins og felur meðal annars í sér að neytandi geti sótt rétt sinn gagnvart fyrirtækjum í heimalandi sínu. „Þetta er ein af mörgum neytendaréttarbótum sem Evrópusambandið hefur staðið fyrir síðustu ár og hefur verið neytendum til góða.“

Meðal annarra má nefna þak sem Evrópusambandið hefur lagt á færslugjöld sem kortafyrirtæki, líkt og VISA og Mastercard, leggja á verslanir. Mega þau nú ekki vera hærri en sem nemur 0,2% af fjárhæð debetkortafærslna og 0,3% af kreditkortafærslum.

mbl.is