Vorkunnsemi gerir ekkert fyrir mig

Alicja Wiktoria Stokłosa og Jón Gunnar Benjamínsson biðu lengi eftir …
Alicja Wiktoria Stokłosa og Jón Gunnar Benjamínsson biðu lengi eftir barni. Kamilla Björg kom í heiminn fyrir rúmu ári og er sólargeislinn í lífi þeirra. Jón Gunnar nýtur föðurhlutverksins til hins ítrasta. mbl.is/Ásdís

Hann er bóndasonur úr Eyjafirði, núverandi forstjóri, faðir og stangveiðimaður og lifir lífinu eftir bestu getu eins og við hin. Jón Gunnar Benjamínsson þarf þó að hafa mun meira fyrir hlutunum en flestir aðrir því hann þarf að notast við hjólastól eftir bílslys sem lamaði hann fyrir neðan mitti. Hann lætur samt stólinn ekki koma í veg fyrir að lifa innihaldsríku og skemmtilegu lífi, en Jón Gunnar rekur ferðaskrifstofu, ferðast um heiminn með unnustu sinni, stundar stangveiði af miklu kappi og leikur við litlu dóttur sína sem kom loks inn í líf þeirra eftir langa bið.

Eina skiptið án bílbeltis

Hann rifjar upp versta dag lífs hans sem var í september 2007, en þá fór Jón Gunnar í gæsaveiðiferð með félögum sínum til Vopnafjarðar. Á planinu var að skjóta gæs og fara þaðan til Egilsstaða í sund. Leiðin lá yfir Hellisheiði eystri og voru þeir þrír vinirnir á ferð í pallbíl.

„Það var mjög vont veður og hvasst. Við vorum á léttum pallbíl og það má segja að það hafi ekki verið sæti aftur í; þetta var hálfgerður hundabekkur, og engin öryggisbelti,“ segir Jón Gunnar.

„Bíllinn missti allt veggrip og við húrruðum þarna niður snarbratta …
„Bíllinn missti allt veggrip og við húrruðum þarna niður snarbratta fjallshlíð. Bíllinn endastakkst og valt,,“ segir Jón Gunnar Benjamínsson sem lamaðist við slysið. mbl.is/Ásdís

„Strákurinn sem keyrði missti stjórn á bílnum þegar það kom mjög sterk vindhviða undir bílinn sem eiginlega lyfti okkur upp. Bíllinn missti allt veggrip og við húrruðum þarna niður snarbratta fjallshlíð. Bíllinn endastakkst og valt. Ég var eins og skopparakringla inni í bílnum en hinir tveir voru sem betur fer í beltum og meiddust ekki,“ segir hann.

„Því var ekki að skipta hvað mig varðaði. Þetta er líklega í eina skipti sem ég notaði ekki bílbelti,“ segir Jón Gunnar.

Í mat hjá Pavarotti

„Það kom í ljós að ósæðin hafði rifnað og það pumpaðist blóð út í brjóstkassann. Mér skilst að læknarnir á Egilsstöðum hafi tekið þá ákvörðun að létta ekki á þessum þrýstingi sem myndaðist, þó að hann væri farinn að valda mér öndunarerfiðleikum. Það varð mér meðal annars til lífs því mér hefði blætt út á stundinni. Þeir hefðu ekki ráðið við neitt,“ segir Jón Gunnar.

Flogið var með Jón Gunnar rakleiðis til Reykjavíkur og var hann kominn þangað nokkrum klukkutímum eftir slysið. Þar beið hans teymi af læknum og undir handleiðslu Tómasar Guðbjartssonar hjartaskurðlæknis var ósæðin saumuð saman og það sett í forgang því lífið lá við. Hann segir Tómas í dag vera góðan vin sinn. „Ég á honum líf mitt að launa og teymi hans auðvitað líka.“

Mænuskaðinn var það næsta sem læknarnir þurftu að glíma við og var hryggurinn spengdur saman. „Það fóru tveir hryggjarliðir alveg í mask og olli það lömun fyrir neðan mittið,“ segir hann.

Heill mánuður hvarf úr lífi Jóns Gunnars og þótt hann muni ekkert úr þessu lífi segist hann hafa lifað ævintýralegu draumlífi í heilan mánuð.

„Ég man mjög skýra drauma. Það var svo skrítið að í þennan mánuð lifði ég bara alveg öðru lífi. Ég var milljarðamæringur á snekkju og lifði þotulífi. Sigldi um Ítalíu eins og kóngur og fór í kvöldmat til Pavarotti heitins. Þegar ég fór í land keyrði ég um á Ferrari og fór í flottustu partíin. Elsti bróðir minn var orðinn geysivinsæl hinsegin poppstjarna og á leiðinni að taka þátt í Eurovision. Þetta var ofboðslega sterk upplifun og alveg eins og þetta væri allt að gerast í alvöru,“ segir hann og brosir.

Tveggja nótta grátur

Því miður hvarf þessi fallega draumsýn um leið og Jón Gunnar opnaði augun. Kaldur raunveruleikinn blasti við; hann lá á gjörgæslu í Reykjavík og fann sér til skelfingar að neðri hluti líkamans var tilfinningalaus. „Þegar ég vaknaði var mér kippt aftur í veruleikann og var hálfsvekktur því hitt lífið var bara alveg brillíant,“ segir hann brosandi.

„Þegar ég vaknaði var ég auðvitað deyfður og ringlaður en svo rann það upp fyrir mér þegar ég reyndi að hreyfa mig hvað hafði gerst. Svo var ég orðinn ofboðslega rýr því það rýrnuðu allir vöðvar og í byrjun gat ég varla haldið á tannbursta. Þá fékk ég sjokk; þarna var ég kominn í ástand sem maður þekkir ekki. Ég varð skíthræddur og var lengi að átta mig á þessu,“ segir Jón Gunnar, en hann var aðeins 32 ára gamall þegar slysið varð.

„Það kom auðvitað að því að ég þurfti að kyngja þessu og ég grét mikið þarna eina nóttina á gjörgæslunni. Svo grét ég ekki yfir þessu aftur fyrr en ég var kominn á Grensás því það var þá orðið svo raunverulegt; þegar maður var kominn á stað þar sem erfið endurhæfing beið manns. Þá gerði ég þetta upp eina nóttina og grét yfir örlögum mínum og síðan ekki söguna meir. Ég hef ekki grátið síðan út af þessu, ekki eitt tár. Ég tók þá stefnu og hélt henni,“ segir hann.

Þú hefur ekki lagst í sjálfsvorkunn?

„Nei. Ég hef aldrei gert það og það gagnast mér ekki neitt. Það gagnast mér heldur ekki að fá vorkunn frá öðru fólki. Skilningur á aðstæðum; það er það sem hjálpar. Bætt aðgengi, hjálpsemi, að bjóða mér í partí þó að það sé kannski einn stigi. Vorkunnsemi gerir ekkert fyrir mig. Ég er heldur aldrei á netinu að skoða það sem er að gerast í lækningum í mænuskaða, ég eyði ekki tíma í það. Ef það finnst lækning kemur það á forsíðum blaða. Það er til nokkuð sem heitir mænuskaðatúrismi og það er fullt af fólki sem lifir á fólki sem er örvæntingarfullt að leita að lækningu. Ég kem ekki nálægt þessu; þetta kostar allt milljónir og gerir sáralítið gagn.“

Verið að tikka í box

Bætt aðgengi fatlaðra á ferðalögum um landið er Jóni Gunnari hugleikið, og hefur verið allt frá því að hann fór í hálendisferðina árið 2009.

„Núna snýst þetta mikið um gott aðgengi að baðstöðum sem spretta upp úti um allt land. Þeir taka misvel í aðfinnslur en það virðist sem þessi mál sitji ansi oft á hakanum. Þá er ég að tala um staði eins og Vök á Egilsstöðum, Krauma í Borgarfirði og Geosea á Húsavík. Þar er gert ráð fyrir aðgenginu, að vissum hluta. Svo stoppar allt. Það er eins og það sé verið að tikka í einhver box. Eins og í Borgarfirði; þar eru rampar en engin lyfta til að koma fólki ofan í vatnið. Sama er í gangi á Húsavík og þetta finnst mér algjörlega óviðunandi og óskiljanlegt. Það er gert ráð fyrir þessu í hönnuninni en svo er ekki farið alla leið,“ segir hann.

„Ég er að vona að þeir lagi þessi mál hjá sér á Húsavík, þeir taka best í þetta. Hinir hafa ekki sýnt því mikinn áhuga en vonandi breytist það,“ segir Jón Gunnar og bætir við að það þýði lítið að eyða stórfé í aðgengi fyrir fatlaða ef það er svo ekki klárað til fullnustu. „Þetta er tragíkómískt.“

Villimaður út í á

Jón Gunnar notar óspart fjórhjólið til þess að ferðast um landið og stunda helsta áhugamál sitt; fluguveiðar.

Jón Gunnar stundar fluguveiðar af miku kappi.
Jón Gunnar stundar fluguveiðar af miku kappi.

„Ég hef mætt miklum skilningi hjá landeigendum og veiðiréttarhöfum að fá að fara á fjórhjólinu um landið þeirra. Ég passa mig auðvitað óskaplega vel að skemma ekki landið,“ segir Jón Gunnar. Hann segist hafa notað fjórhjól mikið í sveitinni sem ungur maður og það hafi verið ákaflega gleðilegt þegar honum varð ljóst að hann gæti áfram setið á slíku hjóli og notið þess að veiða úti í fallegri náttúru landsins.

Við veiðina notar Jón Gunnar fjórhjól og segir bændur mjög …
Við veiðina notar Jón Gunnar fjórhjól og segir bændur mjög skilningsríka og leyfa honum að ferðast þannig um landið til þess að hann geti veitt. Hann vekur gjarnan eftirtekt hjá túristum.

„Oftast er ég á bakkanum en þar sem ég kemst út í fer ég. Það er fyndið þegar ég er úti í miðri á á fjórhjólinu og full rúta af túristum keyrir framhjá. Þá er oft snarhemlað og allir út að taka myndir af mér, þessum villimanni úti í á á fjórhjóli,“ segir hann kíminn.

Jón Gunnar veit fátt betra en að njóta náttúrunnar við …
Jón Gunnar veit fátt betra en að njóta náttúrunnar við fallega á. mbl.is/Ásdís

Ástin fannst á þorrablóti

Það var á rammíslensku norðlensku þorrablóti árið 2011 að leiðir Jóns Gunnars og Alicju lágu saman.

„Við kynntumst á Akureyri, en hún var í námi þar í jarðvarmaskóla sem var í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Það var pólsk vinnukona á bænum hjá pabba og Alicja var vinkona hennar og kom með henni á þorrablót í sveitinni. Hún fór svo heim um tíma en kom aftur og varð þá kærastan mín. Og hefur ekki farið síðan,“ segir hann.

Hún hefur ekki hræðst stólinn?

„Nei, alls ekki.“

Ferðalög innan lands sem utan eru mikið áhugamál hjá Jóni Gunnari og Alicju.

„Ég hef rosalega gaman af því að ferðast og unnusta mín líka. Við erum mjög dugleg að fara til Póllands að heimsækja foreldra hennar. Við höfum verið býsna víðförul og höfum farið til Hawaii, Dubai og til fjölmargra staða í Evrópu og Bandaríkjunum. Aðgengi fatlaðra er frábært í Bandaríkjunum. Þar kemst maður alls staðar inn, þeir taka þetta mjög alvarlega. Alicja hefur verið dugleg að ferðast með mér og hvetja mig áfram til þess að ferðast. Hún er alltaf með einhverjar hugmyndir og næst er á dagskrá að heimsækja vinkonu í Bandaríkjunum. Við vorum í Toskana núna í maí og byrjun júní, sem var alveg frábært. Fórum út um allt og nutum lífsins,“ segir Jón Gunnar.

Nýtur þessa að vera pabbi

Tæp tólf ár eru liðin frá slysinu örlagaríka. „Þetta er langur tími en hefur verið skringilega fljótur að líða. Það er kannski vitnisburður um að ég hafi ekki setið auðum höndum,“ segir Jón Gunnar og ljóst er að það er hverju orði sannara. En lífið í hjólastól býður vissulega upp á áskoranir.

Kamilla Björg unir sér vel í fanginu á pabba sínum.
Kamilla Björg unir sér vel í fanginu á pabba sínum. mbl.is/Ásdís

„Ég horfi björtum augum til framtíðar og hlakka til að sjá stelpuna mína vaxa úr grasi. Ég nýt þess að vera pabbi og ætla að standa mig vel í því. Hún er sjáaldur augna minna.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »