Fluttu 6,3 tonn af rusli úr Barðsvík

Vaskur hópur 17 sjálfboðaliða, áhöfn varðskips Landhelgisgæslunnar og 6,3 tonn …
Vaskur hópur 17 sjálfboðaliða, áhöfn varðskips Landhelgisgæslunnar og 6,3 tonn af rusli, með Barðsvík í baksýn í gærdag. Ljósmynd/Hreinni Hornstrandir
„Ein eyðivík á Hornströndum – 6,3 tonn af rusli“

Einhvern veginn svona gæti inngangur kvikmyndastiklunnar hljómað ef til stæði að gera bíómynd um það hreinsunarstarf sem samtökin Hreinni Hornstrandir hafa staðið fyrir í Barðsvík á Hornströndum í sumar.

Þar fóru sjálfboðaliðar fyrr í sumar og söfnuðu saman 6,3 tonnum af plastrusli sem rekið hafði upp í víkina og í gær var ruslið ferjað úr víkinni yfir í varðskip Landhelgisgæslunnar og þaðan til Ísafjarðar. Barðsvíkin er því orðin svo gott sem laus við allt rusl.

„Það var blíðuveður sem við fengum og frábært fólk, svo þetta gekk bara vonum framar. Þetta var seinni ferðin, við vorum búin að taka þetta saman þegar við fórum 14.-16. júní og nú komum við bara með varðskipinu og ferjuðum þetta með tuðrum út í skipið,“ segir Ísfirðingurinn Gauti Geirsson í samtali við mbl.is.

Ruslið var ferjað með tuðru úr Barðsvíkinni og út í …
Ruslið var ferjað með tuðru úr Barðsvíkinni og út í varðskipið. Ljósmynd/Hreinni Hornstrandir

Hann er einn af hvatamönnunum á bak við þessa hreinsun Hornstranda, sem staðið hefur yfir, vík úr vík, frá árinu 2014. Alls hafa nú 35 tonn af rusli verið fjarlægð úr sjö víkum og einungis tvær eru eftir, sem til stendur að hreinsa næsta sumar.

„Þetta var hörkuvinna, sandurinn nær þarna rosalega hátt upp og fjaran er mjög grunn svo það þurfti að bera þetta langar leiðir, en það er hörkuáhöfn á varðskipinu og við erum með góða sjálfboðaliða, svo þetta gekk bara ótrúlega vel,“ segir Gauti.

Strandlengjan í víkinni er rétt tæpir fjórir kílómetrar svo að meðaltali var um það bil 1,6 tonn af rusli að finna á hverjum kílómetra. „Það er alveg óhugnanlega mikið í sjálfu sér,“ segir Gauti.

Grafið upp til þess að verða grafið niður

Hann bætir við að það sé miður að einungis verði hægt að endurvinna lítinn hluta af því rusli sem hópurinn safnaði úr víkinni, en plast sem er sjórekið og söndugt hentar ekki til endurvinnslu. „Við höfum reynt að skola úr því eins og við getum, en það er afskaplega lítill hluti sem þau vilja taka á móti,“ segir Gauti.

„Eina lausnin sem er í boði í dag fyrir förgun á þessu er að grafa þetta ofan í holu í Borgarfirði. Það er hálf sorglegt, að við séum að rífa þetta upp úr jörðinni til þess eins að einhver annað geti grafið það niður aftur.“

Gauti segir þetta umhugsunarvert og að ef til vill ættum við að fara að finna einhverjar betri leiðir til þess að farga því rusli sem ekki hentar til endurvinnslu, eins og til dæmis þróaðar sorpbrennslustöðvar sem fyrirfinnist víða á Norðurlöndum.

Ljósmynd/Hreinsun Hornstranda

„En auðvitað erum við bæði að fegra landið og koma í veg fyrir að þetta brotni niður og berist út í sjóinn, þó að það sé í litlum mæli í stóra samhenginu séð,“ segir Gauti.

Mikið af ruslinu er net og annað sem berst frá íslenskum sjávarútvegi, en einnig finnur hópurinn þónnokkuð af íslensku og erlendu plastrusli sem hefur farið í hafið og endar svo í vestfirskri eyðivík.

Færri komast að en vilja

Tugir sjálfboðaliða hafa tekið þátt í ferðunum tveimur á Hornstrandir í sumar og eins og fyrri ár komust færri að en vildu. Gauti segir að það sé ákveðinn kjarni af fólki sem reyni að taka þátt á hverju ári en að samtökin reyni einnig að fá inn nýtt fólk til þess að slást í hópinn. Það er þó lítil þörf á að auglýsa sérstaklega eftir fólki.

„Við höfum dregið úr því að auglýsa, því eitt árið bárust 250 umsóknir um 30 sæti og það var mjög leiðinlegt að segja nei,“ segir Gauti.

Sem áður segir stefna samtökin á að hreinsa tvær víkur næsta sumar, Smiðjuvík og Bjarnanes, sem eru einu „stóru rekstaðirnir“ sem enn eru óhreinsaðir.

Að því loknu ætla samtökin svo að byrja upp á nýtt og halda hreinsun Hornstranda áfram, en þá mun fást áhugaverður samanburður á magni rusls sem safnast saman, sem mun gefa vísbendingar um það hversu mikið af plastrusli rekur upp í víkurnar á ári hverju.

Eins og sjá má er Barðsvík tandurhrein eftir hreinsunina.
Eins og sjá má er Barðsvík tandurhrein eftir hreinsunina. Ljósmynd/Hreijnni Hornstrandir



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert