Hækka aldurstakmark á Fiskidögum

Frá Fiskideginum mikla.
Frá Fiskideginum mikla. Ljósmynd/Bjarni Eiríksson

Aldurstakmark inn á tjaldsvæðið á Dalvík meðan á Fiskideginum mikla stendur hefur í ár verið hækkað úr 18 í 20 ár. Framkvæmdarstjóri hátíðarinnar segir ákvörðunina hafa verið sorglega og að leiðinlegt sé að lítill hópur fólks skuli skemma fyrir hinum. 

Júlíus Júlíusson, framkvæmdarstjóri Fiskidagsins, segir að um tilraun sé að ræða og að í ljós verði að koma hvernig til takist. 

„Lögreglan hefur stundum orðað þetta við okkur og við höfum frekar verið á móti því. Við höfum núna verið að vísa í aðrar hátíðir eins og á Húsavík og Akranesi sem hafa jafnvel tekið stökkið mun lengra upp í 23 ára,“ segir Júlíus.

„Það hefur orðið aukning á gestum og við höfum þurft að endurskipuleggja okkur og ákváðum að prófa þetta núna. Þetta er í sjálfu sér tilraun í ár.“

Júlíus segir tjaldsvæðin ekki vera á vegum hátíðarinnar, en að forsvarsmenn hennar hafi tekið þátt í ákvarðanatökunni. Komin sé nokkur hefð fyrir álíka aldurstakmarki á til dæmis Mærudögum á Húsavík og hefur reynslan verið góð. 

„Því miður er bara mjög, mjög lítill hópur sem verður þess valdandi að við förum að skoða þetta. Það er sorglegt að örfáir einstaklingar í öllu þessu mannhafi skuli skemma fyrir hinum. Við bjóðum alla velkomna og hér eru einfaldar reglur. Það er ótrúlegt hvernig sumir geta hagað sér.“

Júlíus segir Fiskidaginn vera fyrst og fremst fjölskylduhátíð og að þar sé ekki pláss fyrir slæma umgengni, neyslu fíkniefna eða annan ósóma.  

„Við viljum og höfum alltaf lagt áherslu á að þetta sé fjölskylduhátíð. Við stöndum mjög vel undir því að fjölskyldur komi saman og njóti. Það ættu allir að geta komið þrátt fyrir að við séum að prófa þetta núna í ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert