Níu sveitarfélög kæra Skipulagsstofnun

Níu sveitarfélög hafa kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar …
Níu sveitarfélög hafa kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Níu sveitarfélög hafa kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé háð mati á umhverfisáhrifum. Þetta eru sveitarfélögin Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

„Framkvæmdin hefur afar jákvæð samfélagsleg áhrif vegna bætts umferðaröryggis og er ætlað að taka á lífshættulegum aðstæðum sem vegfarendum er boðið upp á sem óskiljanlegt er að ákvörðun Skipulagsstofnunar taki ekki mið af.“ Þetta segir í tilkynningu frá Akraneskaupstað. 

Mælst er til þess að framkvæmdum verði hraðað við breikkun vegarins svo ekki verði fleiri slys. Bent er á að þar sem um breikkun vegarins er að ræða hefur landið þegar raskast á svæðinu.  „Framkvæmdin hefur ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og enginn umsagnaraðila Skipulagsstofnunar taldi að tilefni væri til að ráðast í mat á umhverfisáhrifum,“ segir ennfremur í tilkynningu.  

mbl.is