Pólverjar draga framsalsbeiðni til baka

Málið snýr að meintri fíkniefnaframleiðslu, fíkniefnasmygli, fjársvikum og peningaþvætti.
Málið snýr að meintri fíkniefnaframleiðslu, fíkniefnasmygli, fjársvikum og peningaþvætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Málið er bara í þeirri meðferð sem það á að sæta lögum samkvæmt og það verður bara að koma í ljós hvað kemur út úr því,“ segir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um Euro-Market-málið svokallaða, sem lögmaður meints höfuðpaurs segir „orðið að engu“.

Málið kom inn á borð ákærusviðs í vor eftir viðamikla rannsókn lögreglu, sem hófst árið 2017 og er ein sú umfangsmesta sem ráðist hefur verið í vegna skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi.

Málið snýr að meintri fíkniefnaframleiðslu, fíkniefnasmygli, fjársvikum og peningaþvætti og þegar mest lét höfðu 28 einstaklingar og fjórir lögaðilar réttarstöðu grunaðra í málinu. Þá höfðu yfirvöld í Póllandi óskað eftir því að eigandi Euro-Market yrði framseldur til Póllands vegna rannsóknar á sakamáli og gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum, en Fréttablaðið greinir frá því í dag að hvort tveggja hafi verið dregið til baka.

Þá er rætt við lögmann umrædds eiganda, Steinberg Finnbogason, sem segir málið með ólíkindum og að engu orðið.

Hulda Elsa segir að í skoðun sé hvort ákvörðun yfirvalda í Póllandi muni hafa einhver áhrif á gang málsins. Hún vill ekki segja til um hvenær gera megi ráð fyrir að ákæra verði gefin út í málinu.„Þetta er umfangsmikið mál og það tekur sinn tíma að fara yfir þetta.“

mbl.is