Rigning og súld víða um land

Veðurútlit á hádegi í dag, mánudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, mánudag.

Suðaustlæg átt, 3-10 m/s og dálítil rigning eða súld verður víða um land í dag, en styttir smám saman upp norðan og austan til. Áfram verður skýjað og lítils háttar úrkoma í flestum landshlutum eftir hádegi og líkur á síðdegisskúrum fyrir norðan. Það bætir síðan í úrkomu suðaustanlands seint í kvöld.

Á morgun verður svo austlæg átt, 5-13  m/s og rigning með köflum, hvassast á annesjum, en rofar til fyrir norðan um kvöldið. Hiti verður á bilinu 12 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.

Vindar verða svo norðaustlægari er líður á vikuna og dregur sums staðar frá sólu á Suður- og Vesturlandi. Áfram verður þó hlýtt í veðri í flestum landshlutum við upphaf hundadaga að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings, en gömul veðurtrú segir að ef rignir fyrsta hundadaginn, Margrétarmessu 13. júlí, muni rigna það sem eftir lifir af sumri.

Veðrið á mbl.is

mbl.is