Þyrlan sótti veika hestakonu

Þyrla Landhelgisgæslunnar var fengin til að flytja konuna á Landspítalann.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var fengin til að flytja konuna á Landspítalann. mbl.is/Árni Sæberg

Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar í nótt til að sækja konu sem hafði veikst er hún var með hópi fólks í hestaferð í nágrenni Seljalandsfoss.

Lögreglan á Suðurlandi sagði í samtali við mbl.is að hjálparbeiðni vegna konunnar hefði borist kringum miðnætti. Björgunarsveitir voru svo ræstar út um hálfeittleytið þegar staðsetning hópsins lá fyrir, en fólkið var við Írá á Núpsheiði undir Eyjafjöllum.

Tveir sjúkraflutningamenn fóru svo á staðinn með björgunarsveitunum, en þær fóru gangandi upp árgilið til móts við hópinn. Er á staðinn var ástand konunnar síðan metið sem svo að ástæða væri til að fá hana flutta með þyrlu Gæslunnar og var komið með hana á Landspítalann um fjögurleytið í nótt.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi liggja ekki fyrir frekari upplýsingar um líðan konunnar.

mbl.is