Vangaveltur Björns „með ólíkindum“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra vísar vangaveltum Björns Leví til …
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra vísar vangaveltum Björns Leví til föðurhúsanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var kjörinn varaformaður bankaráðs asísks innviðafjárfestingabanka um helgina. Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata lét það í veðri vaka að tilefni væri til þess að kanna hvort það starf Bjarna stangaðist á við siðareglur ráðherra.

Bjarni vísar þeim vangaveltum til föðurhúsanna. „Það er með miklum ólíkindum að sjá vangaveltur um brot á siðareglum ráðherra af þessu tilefni. Það vantar bara að menn segist hafa um það rökstuddan grun,“ segir Bjarni í Facebook-færslu.

Með „rökstuddum gruni“ er hann að vísa í orð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur þingflokksformanns Pírata um Ásmund Friðriksson þingmann Sjálfstæðisflokks en Þórhildur sagði að rökstuddur grunur væri fyrir því að Ásmundur hefði gerst sekur um fjárdrátt.

Bjarni segist sitja ólaunað í bankaráði AIIB-bankans umrædda, ásamt fulltrúum 78 annarra fullgildra aðildarríkja. „Í síðustu viku skipti bankaráðið með sér verkum. Það kom í hlut Íslands og þar með minn að gegna varaformennsku,“ segir hann.

Vangaveltum sínum varpaði Björns Leví fram á Facebook en hann deildi þar frétt af varaformennsku Bjarna í bankaráðinu, vísaði í siðareglur ráðherra um að hann skyldi ekki gegna öðrum störfum og sagði svo „Eitt stykki fyrirspurn á leiðinni.“ Enginn hefur sent fleiri fyrirspurnir þetta kjörtímabil en Björn Leví.

mbl.is