Afmynduð hlíð „svolítið alvarlegt mál“

Vinstra megin sést neðri hluti hlíðarinnar sem hefur sigið fram …
Vinstra megin sést neðri hluti hlíðarinnar sem hefur sigið fram og þar fyrir ofan þverhnípt brotsárið. Tungnakvíslajökull liðast niður fyrir miðju. Ljósmynd/Þorsteinn Sæmundsson

Fyrir tveimur vikum uppgötvaði vísindamaður hjá Landmælingum Íslands verulegt skrið í fjallshlíð sem gengur út af vestanverðum Mýrdalsjökli. Jarðvísindamaður segir uppgötvunina áhyggjuefni í samtali við mbl.is.

„Það er svolítið alvarlegt mál þegar svona mikill efnismassi er á hreyfingu og hefur verið á hreyfingu um einhvern tíma. Þetta er eitthvað sem við verðum að leita skýringa á,“ segir Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Hann hefur farið að hlíðinni einu sinni í sumar ásamt hópi manna.

Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur segir skriðið áhyggjuefni.
Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur segir skriðið áhyggjuefni.

Hlíðin sem um ræðir gengur út af Mýrdalsjökli rétt norðan við Tungnakvíslajökul sem rennur undan Mýrdalsjökli austan Fimmvörðuháls. Alls er svæðið sem er á hreyfingu um 0,8 til 1 km2 að flatarmáli.

„Hlíðin hefur skriðið niður um alla vega 180 metra. Við erum að leita orsaka fyrir því og um leið viljum við meta hvenær hreyfingin hefur átt sér stað, á hve löngum tíma og hvort hún hafi komið í rykkjum eða hafi staðið jafnt í einhvern tíma,“ segir Þorsteinn. 

Brotsár, sem hér er ónákvæmlega merkt, gengur eftir efstu brún …
Brotsár, sem hér er ónákvæmlega merkt, gengur eftir efstu brún hlíðarinnar frá vestanverðri hlíðinni í um 500 metra hæð upp í 1100 metra hæð í henni austanverðri. Myndin sýnir snævi þakið fjalllendið en svo er vitaskuld ekki á þessum árstíma en Google býður ekki betur. Þar sem skriðið hefur orðið er snjólaust nú. Ljósmynd/Google Maps

Hann segir að skrið sem þetta geti verið af mörgum ástæðum og þar komi sterklega til greina jökulhörfun, sem þekkt er að hafi orðið á þessu svæði og að geti valdið aflögun á hlíðum undan jökli. Þá getur annað orðið til þess að hlíðin skríði niður, undangröftur hvers konar til dæmis eða að hreyfingar þessar tengist skjálftavirkni í grenndinni.

„Jöklar eru að hörfa og það eitt og sér hefur áhrif á svona hlíðar,“ segir Þorsteinn. „Alls staðar sem við sjáum eitthvað svona hlýtur það að kalla á viðbrögð. Ef þetta er að gerast beint fyrir framan nefið á okkur og við tökum ekki eftir því þá vekur það spurningar um hverju öðru við tökum ekki eftir.“

Skriðið kom í ljós þegar Joaquin Belart, starfsmaður Landmælinga Íslands, var að bera saman loftmyndir af svæðinu. Í sumar hyggjast Þorsteinn og hans menn fara á svæðið einu sinni eða tvisvar enn til að afla frekari upplýsinga um þróunina. 

Skriðið hefur orðið í hlíð norðan við Tungnakvíslajökul. Hér er …
Skriðið hefur orðið í hlíð norðan við Tungnakvíslajökul. Hér er svæðið merkt. Ljósmynd/map.is
Það er við vestanverðan Mýrdalsjökul sem skriðið hefur orðið.
Það er við vestanverðan Mýrdalsjökul sem skriðið hefur orðið. Ljósmynd/Google
mbl.is