Ekki bjartsýn á að smitleiðin finnist

Fjöldi sýna hefur verið tekin víðsvegar á bænum
Fjöldi sýna hefur verið tekin víðsvegar á bænum mbl.is/Hari

Ábending barst Heilbrigðiseftirliti Suðurlands um að opið hafi verið að kálfastíu með þremur kálfum á laugardeginum 6. júlí sem greindust með E.coli í Efstadal II þrátt fyrir tilmæli Heilbrigðiseftirlitsins um að loka fyrir umgengni að kálfunum á fimmtudeginum 4. júlí. 

Sigrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins, segir að ábendingin hafi borist á mánudeginum 8. júlí. „Við könnuðum þetta og höfðum strax samband og fengum þær skýringar að þá hafi verið unnið að því að þrífa stíuna. Þess vegna hafi verið opið þarna í mestalagi í augnablik,“ segir Sigrún.

Hún tekur fram að eftirlitið hafi enga ástæðu til að ætla að eigendur og starfsfólk í Efstadal II hafi ekki fylgt fyrirmælum. 

Fjöldi sýna hefur verið tekin víðsvegar á bænum. „Við erum engu nær um hvaða leið smitið hefur farið,“ segir Sigrún. Enn er verið að leita að þeirri leið. „Ég er ekki rosalega bjartsýn á að við finnum nokkurn tíma ástæðuna fyrir þessu,“ segir hún.  

Sigrún Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.
Sigrún Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is