Hrækt og hvæst á múslimafjölskyldu

Þórunn Ólafsdóttir er vinkona fjölskyldunnar og hringdi á lögregluna eftir …
Þórunn Ólafsdóttir er vinkona fjölskyldunnar og hringdi á lögregluna eftir að hafa heyrt af málinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Fjölskyldan var á leið út úr versluninni þegar kona veittist að þeim, fyrst með ókvæðisorðum en svo bætti hún í og hrækti á þau og gerði tilraunir til að rífa í hijab kvennanna, sem er þekkt aðferð hatursglæpamanna til að niðurlægja múslima. Tilefni árásarinnar var hatur í garð innflytjenda og múslima. Í landinu sem ætlaði sér að veita fjölskyldunni öruggt skjól. Árásarmanneskjan hvæsti ítrekað á fólkið að það skyldi koma sér heim og það væri ekki velkomið hér á Íslandi.“

Svona lýsir Þórunn Ólafsdóttir atvikum þeim sem áttu sér stað við verslunarkjarna í Breiðholti í gær, en Þórunn þekkir fjölskylduna sem varð þar fyrir aðkasti íslenskar konu. Málið er nú rannsakað sem hatursglæpur hjá miðlægri deild lögreglu.

Í Facebook-færslu Þórunnar kemur fram að fjölskyldan hafi sjálf haft samband við lögregluna eftir árásina, en að lögreglan hefði ekki talið tilefni til þess að koma þeim til aðstoðar, fyrr en að Þórunn sjálf hringdi, eftir að hafa heyrt af málinu.

„Hvort það var lýtalaus íslenskan mín [...] sem náði að sannfæra lögregluna um að þarna væri fólk sem þyrfti á lögregluaðstoð að halda skal ég ekki segja til um, en lögreglan var í þessari atrennu tilbúnari að koma á staðinn. Niðurstaðan varð þó á endanum sú að fólkið var beðið að koma og hitta lögregluna á Dalvegi og gefa skýrslu,“ skrifar Þórunn, en eins og lögregla sagði í svari við fyrirspurn mbl.is fyrr í dag komu þrjár konur og gáfu lögreglu skýrslu um málið um tveimur klukkustundum eftir að atburðir átti sér stað.

„Nú ætla ég ekki að þykjast hafa meira vit á vinnubrögðum lögreglunnar en hún sjálf, en hvernig hefði þetta mál endað ef fjölskyldan hefði ekki átt bakland sem gat gengið í málið? Hversu mörgum svona árásum heyrum við aldrei af?“ skrifar Þórunn og bætir við að það sem setji að henni mestan óhug sé að atburður sem þessi eigi sér stað um hábjartan dag í landi sem kennir sig við öryggi og friðsæld.

Hún hvetur fólk sem varð vitni að árásinni til þess að setja sig í samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.mbl.is