Nýjum smitum fari vonandi fækkandi

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, vonar að nýjum smitum fari fækkandi í …
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, vonar að nýjum smitum fari fækkandi í vikunni.

„Ég bind allavega enn vonir við að það hylli undir að þetta fari dvínandi,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, spurður um stöðu mála vegna e.coli-sýkingar sem greinst í nítján börnum hér á landi. Þá er uppi grunur um að bandarískt barn sé einnig smitað, en það var á sömu slóðum og þar sem nær öll börnin voru, í Efstadal II í Bláskógabyggð.

Þórólfur sagði í samtali við mbl.is í gær að hann byggist við að smitum fjölgaði ekki í þessari viku ef allt virkaði sem skyldi. 

Þrjátíu sýni til rannsóknar

Aðspurður segir hann að frekari tíðinda sé að vænta í dag þegar niðurstöður berist úr rannsóknum á sýnum. Talsvert álag hefur verið við rannsóknir frá því smitið kom fyrst upp, en útlit var fyrir að um síðustu helgi gætu þau safnast upp. „Í gær voru þrjátíu sýni til rannsóknar, en við fylgjumst ekki mikið með þeim fjölda heldur frekar því sem kemur út úr sýnunum. Fjöldi sýna segir ekki alla söguna,“ segir Þórólfur. 

Þórólfur segir að engar nýjar fregnir séu um smit erlendis, en hann var síðast í samskiptum við Bandaríkjamenn vegna bandaríska barnsins fyrir helgi. Hann kveðst ekki hafa fengið svör við nýrri fyrirspurn sinni frá því í gær. 

„Nú sjáum við bara hvernig þessu vindur fram hvað varðar greiningar og við fylgjumst með. Það er ekkert annað að frétta en það,“ segir Þórólfur.

mbl.is