Starfshópur skipaður en ekki dýralæknir

Eigendur dýra, stórra og smárra, á Vestfjörðum þurfa að leita …
Eigendur dýra, stórra og smárra, á Vestfjörðum þurfa að leita lengra en vanalega eftir þjónustu dýralæknis. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hyggst skipa starfshóp um þjónustu dýralækna í dreifðum byggðum og vaktþjónustu dýralækna. Hópurinn á að skila tillögum í október næstkomandi. 

Frá 1. júlí hefur enginn dýralæknir verið starfandi í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum eins og mbl.is hefur greint frá. Enginn hefur sótt um starfið sem var auglýst í mars á þessu ári. Á þeim tíma sagði eini starfandi dýralæknirinn á svæðinu upp þjónustusamningi sínum við MAST sem hann fullyrðir að sé „ómanneskjulegur“. 

„Hlutverk starfshópsins er að taka núverandi skipulag þjónustunnar til endurskoðunar og með því tryggja aðgengi að dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum og utan dagvinnutíma á hagkvæman og aðgengilegan hátt, með áherslu á velferð dýra.“ Þetta kemur fram í skriflegu svari frá ráðuneytinu fyrir fyrirspurn mbl.is. 

Óskað hefur verið eftir því að Dýralæknafélag Íslands og Matvælastofnun sendi tilnefningar í starfshópinn fyrir 6. ágúst. 

Ekki fengust upplýsingar um hvort gripið verði til bráðabirgðaráðstafana til að manna stöðu dýralæknis á Vestfjörðum í millitíðinni. 

mbl.is