Vatnsleki á stúdentagörðum

Ólukkuhúsið alræmda.
Ólukkuhúsið alræmda. mbl.is/Alexander

Tveir dælubílar frá slökkviliði voru kallaðir út að stúdentagörðum á Eggertsgötu 24 á fimmta tímanum í dag. Vatnslögn á fimmtu hæð hússins hafði farið í sundur og vatn lekið alveg niður á jarðhæð. Garðarnir sem um ræðir eru þeir sömu og kviknaði í fyrir viku, en í samtali við mbl.is segir Bjarni Ingimarsson slökkviliðsmaður að engin tenging sé milli óhappanna tveggja. Um sé að ræða gamalt vandamál við lagnir sem hafi nú komið í ljós.

Búið er að hreinsa upp vatnið, en enn á eftir að koma lögnum í lag áður en aftur verður skrúfað frá vatninu. Það er í höndum verktaka. Háskólabúðin er til húsa á jarðhæð Eggertsgötu 24, en í samtali við mbl.is sagði starfsmaður verslunarinnar að lekinn hefði ekki haft áhrif á verslunina, að öðru leyti en að vatnslaust væri í öllu húsinu.

Frá brunanum í síðustu viku.
Frá brunanum í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is