Allt í rúst í Sundhöll Keflavíkur

Sundlaugin er nokkurra metra djúp í annan endan og botninn …
Sundlaugin er nokkurra metra djúp í annan endan og botninn er fullur af rusli. Ljósmynd/Aðsend

Skemmdarvargar hafa verið að verki um hríð í gömlu Sundhöll Keflavíkur. Þar sem áður var sundlaug er nú ruslahaugur og veggjakrot er upp um alla veggi. Maður sem átti leið um sundhöllina í gær lýsir aðkomunni sem „hálfgrátlegri.“

Ungmenni og óaldarlýður virðast eiga greiða leið inn í sundhöllina. Gluggar og inngangar hafa ekki verið byrgðir. Lögreglunni berast reglulega tilkynningar um mannaferðir í húsnæðinu, fara þá á vettvang og beina því til bæjaryfirvalda að loka staðnum.

Allt gler brotið í gömlum afgreiðsluklefa.
Allt gler brotið í gömlum afgreiðsluklefa. Ljósmynd/Aðsend

Byggingafulltrúi hjá Reykjanesbæ segir að húsnæðið sé á ábyrgð verktakans, sem hyggst rífa húsið og byggja þar fjölbýlishús. Húsanes Verktakar ehf., sem Halldór Karl Ragnarsson rekur, hafa heimild til þess að rífa húsið og er það stefnan. Þeir hafa ekki svarað mbl.is.

Mikill styr hefur staðið um áform um að rífa húsið vegna sögulegs gildis þess. Það hefur verið í órækt um nokkra hríð og síðasta haust var óskum um að friða húsið hafnað og ákvörðun tekin um að leyfa niðurrif þess.

Verktakinn ber að sögn talsmanna Reykjanesbæjar ábyrgð á því að …
Verktakinn ber að sögn talsmanna Reykjanesbæjar ábyrgð á því að loka húsinu. Ljósmynd/Aðsend

Á meðan framkvæmdir eru ekki hafnar við að rífa húsið er opið þangað inn. „Við höfum ekki plötur og verkfæri til að byrgja húsið,“ sagði lögregluþjónn á Suðurnesjum við mbl.is. „Því förum við og látum Reykjanesbæ vita af ástandinu.“

Fjölyrða þarf svo sem ekki um hætturnar sem búa í yfirgefnu húsnæði sem þessu, eins og í djúpri tómri sundlaug fullri af rusli og brotnum húsgöngum. Í athugasemdum inni á Facebok-hópnum „Björgum Sundhöll Keflavíkur“ eru athugasemdirnar á eina leið: „Sorglegt, skammsýnt og óþolandi.“ Í þeim hópi eru menn að vonum enn á því máli að ekki skuli rífa húsið yfirleitt. En sú ákvörðun hefur þegar verið tekin.

Gamli sundlaugarsalurinn er ekki sjón að sjá.
Gamli sundlaugarsalurinn er ekki sjón að sjá. Ljósmynd/Aðsend
Brotnir gluggar og veggjakrot.
Brotnir gluggar og veggjakrot. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina