Glannaakstur endaði á gatnamótum

Fólkið yfirgaf bifreiðina snögglega og flúði af vettvangi.
Fólkið yfirgaf bifreiðina snögglega og flúði af vettvangi. Ljósmynd/Aðsend

Glannaakstur fjögurra ungmenna á stolinni bifreið endaði snögglega á gatnamótum Hraunbæjar og Bæjarháls rétt fyrir miðnætti í gær þegar óhapp varð til þess að öxlar og undirvagn bifreiðarinnar skemmdust mikið.

Ekki er ljóst hvort um árekstur hafi verið að ræða eða hvernig óhappið varð en ljóst er að tjónið á bifreiðinni er mikið.

Fjórir einstaklingar, ein kona og þrír karlmenn, voru í bifreiðinni þegar óhappið átti sér stað en þau sluppu ómeidd frá því og flúðu vettvang í miklum flýti. Það kom þó ekki í veg fyrir að myndir næðust af þeim á flótta. Þau eru talin vera á tvítugsaldri.

Lögreglan kom á vettvang innan fárra mínútna en þá var fólkið á bak og burt. Bifreiðin var óökufær með öllu og kalla þurfti eftir tækjaflutningabifreið til að fjarlægja hana af vettvangi.

„Um stolna bifreið er að ræða og málið er í rannsókn,“ segir Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Bifreiðin var óökufær með öllu og kalla þurfti á tækjaflutningabifreið …
Bifreiðin var óökufær með öllu og kalla þurfti á tækjaflutningabifreið til að fjarlægja hana. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is